Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Gleðilegt nýár allir og allar og öll
31.12.2007 | 19:36
Ástandslýsing:
Kalkúnninn (hálf)étinn, börnin að tryllast yfir kínverjunum, legið á meltunni, beðið eftir Geir Harða.
Framtíðarvon:
Sofa út á morgun, lagast af kvefinu, eiga gleðilegt nýár, tapa nokkrum aukakílóum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ert' ekki að djóka í mér?....
29.12.2007 | 20:17
Er nýjasti frasinn hjá litla gormi. Hann notar þetta samt ekkert í óhófi heldur bara á skemmtilega viðeigandi hátt ef hægt er að tala um viðeigandi hjá litlum 6 ára strák.
Í gær sagði ég honum að við værum að fara til Kanarí um páskana. Það var eins og ég hefði kveikt á gleðitilfinningasprengju, andlitið hans bókstaflega lýstist upp og svo kom þetta: "Ert' ekki að djóka í mér?" Ég svaraði; "nei, nei, þetta er alveg satt". Sá stutti varð alvarlegur í bragði og leit á mig og sagði: "Mamma, maður segir bara svona".
Hann á eftir að spjara sig þessi strákur.
Smá um flugelda.
Í fyrra var þetta skelfilegur tími, hann var alltaf svo hræddur við flugelda, og það við öll tækifæri. Áramót voru skelfileg, þrettándinn vonlaus, Þjóðhátíðin stórskemmd og meira að segja ekki hægt að fara á setningu Shellmótsins. Alls staðar þessi vondu flugeldar. Við römbuðum loks á það um síðustu þjóðhátíð að kaupa almennilegar heyrnarhlífar og það var allt annað líf. Núna er hann með heyrnarhlífarnar tilbúnar en finnst þetta annars bara spennandi. Í fyrra reyndi hann að loka sig frá hávaðanum úti (hér er sprengt eiginlega non-stop frá hádegi 28. des. þegar byrjað er að selja og fram á þrettándann) með því að grúfa sig ofan í leik. Núna hleypur hann út í glugga að fylgjast með.
Það á eftir að verða í góðu lagi með þennan stúf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Barnaland.is
28.12.2007 | 22:49
Þetta spjallsvæði, sem heitir reyndar núna Er.is - þ.e. þær umræður sem ekki snúast beint um börn og brjóstagjöf - hefur afskaplega illt orð á sér og er umdeilt með eindæmum. Mætti jafnvel flokka það með feministum, Vestmannaeyingum, Framsóknarflokknum og fleiri utangarðsbörnum í íslenskri þjóðfélagsumræðu.
En Barnaland (eða Er-is) er í rauninni heillandi smáheimur. Ef maður bara gætir þess að nota sömu lögmál og í alvöru heiminum, þ.e. að taka öllu hæfilega alvarlega, stíga varlega til jarðar og hafa húmorinn í fyrirrúmi. Það er samt aldrei nærri því eins gaman að lesa bara eins og að taka þátt. Ótrúlega létt að detta inn í bullið þarna.
Hér kemur umræða frá því í kvöld sem er svo einstaklega mikið Barnaland í hnotskurn. Alger snilld.
http://er.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=8326656&advtype=52&page=1
P.s. hver kann að kenna mér að endurskíra svona tilvitnaða hlekki?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábært!
28.12.2007 | 22:23
Margrét Lára íþróttamaður ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólaköttur og veikindi
23.12.2007 | 08:49
Við eigum undarlegan kött. Við ættleiddum hann tæplega árs gamlan og nú er hann á þriðja ári. Ætti að vera stór og stæðilegur fressköttur en er óttaleg písl sem er lagður í einelti af kattatröllunum í nágrenninu. En hann er líka undarlegur karakter. Hann er sá matvandasti sem ég þekki (af öllum dýrum og mönnum) og væri það efni í heila bloggfærslu. Við höldum stundum að hann haldi að hann sé hundur, honum finnst t.d. mjög gaman að sækja bolta og svo hleypur hann eins og hundur.
Honum er meinilla við breytingar svo þessi tími er erfiður. Þegar við héldum fermingarveislu heima í vor trompaðist hann. Við urðum að læsa sólhúsinu þar sem við vorum búin að dekka borðin því hann stökk upp á borðin, klóraði göt á dúkana og henti skrautsteinunum út um allt.
Í desember er hann búinn að vera með eyrun meira og minna afturstæð. Hann þolir ekki þessi jólaljós, hann þolir ekki jólagardínurnar í eldhúsglugganum (erfiðara að fara út núna?), hann lítur tréð illu auga en þorir samt ekkert að gera við það. Hann er dúlla þessi köttur.
Annars er Daníel búinn að vera lasinn, var allt í einu svo kalt í gær og lagðist upp í rúm með 39 stiga hita og svaf þar frá 15-20. Virðist stálsleginn núna, er farinn að tína kúlur upp á tréð og grátbiður mömmu um að koma að lita Kertasníki.
Ég er að spá í hvort við ættum kannski að kíkja í sunnudagaskólann (hina vinnuna mína). Dauðlangar að hitta vinina mína þar stóra og smáa og syngja með þeim nokkur jólalög svona korter fyrir jól. Örri (sr. Guðmundur Örn) segir að það verði örugglega fámennt og notalegt því það gleymdist að auglýsa sunnudagaskóla á Þorláksmessu.
En ég vil ekki fara án Daníels - en á ég að leyfa honum að fara með mér??
Erfið ákvörðun....Ég vildi stundum að ég væri köttur. Það er sjálfsagt erfitt stundum en ákvarðanirnar eru a.m.k. einfaldari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólafrí!
21.12.2007 | 21:08
5 daga frí framundan og ég sit eins og skata uppi í stól. Er meira að segja einna helst komin á þá skoðun að jólin komi þó ég sitji hérna alla helgina.
En þetta er líka allt að koma. Ef ég laga til núna þá þarf ég hvort eð er að laga til aftur á morgun og á sunnudaginn en ef ég laga til á morgun er nóg að ég lagi til aftur á sunnudaginn. Að sleppa einni tilltekt er freistandi tilhugsun. Ég er í spennufalli núna.
Ég upplifði kraftaverkadag í vinnunni. Jólin eru sannarlega tími kraftaverkanna. Ýmis erfið mál, fjárhagserfiðleikar og samskiptaerfiðleikar fólks fengu allt í einu ótrúlega farsælan endi. Ekki í fyrsta skipti sem málin leysast eins og af sjálfu sér korter fyrir jól. Ég held að Gabríel erkiengill sé árlegur gestur hjá okkur öllum og þá ekki síst hjá þeim sem standa í hvers kyns basli.
Tölvan mín er full af jólakveðjum frá alls konar fólki sem stendur mér fjær og nær.
Unglingurinn minn er niðri í bæ á unglingajólaballi . Unglingurinn sem fór helst ekkert út fyrir rúmu ári síðan hvarf héðan út með hárið vandlega gelað í "do" og í ilmvatnsskýi.
Maðurinn minn kom heim úr borg óttans í gærkvöldi.
Litli drengurinn minn er að föndra jólasvein handa mömmu.
Gæti lífið verið betra?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þessi tími....
21.12.2007 | 07:59
Er í senn heillandi og skelfilegur þegar maður er með einhverft barn.
Vikan er búin að vera verulega strembin, það er fullt starf bara að fylgjast með því hvar börnin eiga að mæta með jólahúfur, sælgæti, kerti, pakka í pakkaskipti, æfing hér, tónleikar þar.
Á þriðjudaginn var Daníel búinn að taka 3 köst eftir að ég sótti hann á frístundaverið - var samt búinn að vera hjá systur minni í klukkutíma meðan ég fór á jólatónleika hjá Gústa. Síðan þurfti unglingurinn að fara á æfingu svo ég fer heim með Daníel og tók hann þar einmitt þriðja kastið yfir því að við gleymdum að kveikja á dagatalskertinu í gær. "Það er ekki 17., það er 18! Við verðum að kaupa nýtt kerti og byrja upp á nýtt". Sorgin er algerlega ósvikin yfir þessum ótrúlegu svikum heimsins.
Ákváðum þegar unglingurinn kom heim að fara bara út í sjoppu og kaupa hamborgara enda klukkan að verða 8. Það gekk stórslysalaust eftir að ég sagði Daníel að ef hann myndi halda áfram að slökkva á ískælunum þá fengjum við ekki hamborgarana.
Þegar við fórum að borðinu að ná í borgarana rak hann augun í Kinder egg. Upphófst mikil rekistefna, þræta, suða, biðja, semja. Mamma var ósveigjanleg. Þó það væri hamborgaradagur væri ekki nammidagur.
Litli maðurinn stillti sér upp og horfði á mig og spurði svo: "Viltu að ég fari að gráta einu sinni enn?"
Stundum held ég að hann sé ekki einhverfur. Hann er bara að leika á okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jólaminningar
16.12.2007 | 15:08
Magnað hversu margar og sterkar minningar tengjast jólunum.
Hér er ein.
Veit ekki hversu gömul ég var, grunar að ég hafi verið á þriðja ári. Sit á tandurhreinu eldhúsgólfinu, einhver af systkinum mínum sitja við eldhúsborðið, það er mikið í gangi, mikið af pappír, skrjáfi og skrafi. Einhver, ég held Þröstur, réttir mér skopparakringlu. Einhver segir: "Hvað ertu að gera, hún á að fá þetta í jólagjöf". "Skiptir engu máli, hún er svo lítil". Ég leik mér um stund að skopparakringlunni. Ekkert mál að skila henni svo til baka, ég veit ég á að fá hana í jólagjöf
Ályktun 1: Smábörn eru ekki eins vitlaus og við höldum.
Ályktun 2: Ég verð aldrei eins góð húsmóðir og mamma mín (eldhúsgólfið mitt er ALDREI tandurhreint).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég er að velta fyrir mér.....
14.12.2007 | 16:08
... ef sonur minn fer nú að sýna erfiða hegðun sem rekja má til fötlunar hans, getur Grunnskóli Vestmannaeyja ákveðið að hann eigi ekki lengur rétt á skólavist þar, heldur eigi hann að fara í sérskóla? Á ég þá að senda hann með Herjólfi á morgnana og hann kemur til baka kl. 23.00 á kvöldin eða yrði fjölskyldan flutt nauðungarflutningi á höfuðborgarsvæðið?
Nei var bara svona að velta því fyrir mér hvað gæti verið framundan..... hvar liggja mörkin?
Bærinn gat neitað stúlku um skólavist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Á ég að fara út í búð að hamstra?
3.12.2007 | 19:22
Herjólfur kemur í kvöld, fer svo upp á land í viðgerð á morgun og kemur í fyrsta lagi á föstudag. Við fáum líklega vörur á fimmtudag með Selfossi (nei ekki bæjarfélaginu innan Árborgarsvæðisins heldur skipi Eimskipa).
Á ég að fara út í búð og hamstra mjólk, brauð, djús og kartöflur?
Eða á ég að treysta því að Maggi Kristins reddi okkur með þyrlunni ef það sverfur hungur að íbúunum?
Nú hefðum við þurft að eiga nokkrar svona:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)