Já, á ég að blogga hér?

Það verður að segjast eins og er að feisbókin hefur verulega seðjað tjáningargleði mína að undanförnu en kannski er kominn tími á smá færslu hér.

Mér líður allvel.  Kannski vegna þess að ég hef það sem af er árs haldið mig alfarið á eyjunni góðu. Ég er enn furðu lostin á öllum þessum Íslendingum sem hingað til hafa tekið hverju sem er sem að þeim er rétt en eru nú að sýna hegðun sem maður hefur hingað til aðeins séð á Reuters fréttamyndum.

Ekki meir um það. Þetta hlýtur allt að lagast. Og koma í ljós. Og reddast.

Orsök vellíðan minnar er örugglega nýtilkomið jóga.  Ég var svo dugleg að mæta í Body Balance hjá henni Hafdísi fyrir áramót að hún gaf mér eitt stk. jóganámskeið. Þetta er algerlega málið.  Ég elska þetta.

Mæli með þessu fyrir alla.

Nameste!

 


Jólablogg

Sofa. Borða góðan mat. Slappa af. Afstressa sig með tilheyrandi hruni ónæmiskerfisins og heiftarlegu kvefi.  Fá gjafir og hafa fallega hluti og kertaljós í kringum sig.  Ánetjast kæruleysi í hæfilegu magni.  Sofa aðeins meira. Kíkja aðeins í Hressó í hjólatíma og vinna sér inn fyrir einum til tveimur konfektmolum til viðbótar.  Lesa bókina hennar Erlu Bolla.  Geta ekki ákveðið sig hvað á að gera í skólamálunum.  Borða bara aðeins meira, jafnvel fá sér eitt rauðvínsglas.  Og fara svo að sofa.

 


Hér sé stuð. Sigrún stuð.

Ég ætla rétt að "vona" að allir séu búnir að skoða umtöluðustu bloggsíðu vefheima í Eyjum þessa dagana og snilldarfærslu hennar um Herjólf og hvali:

 http://sigrunstud.blog.is/blog/sigrunstud/

 Ég leyfi mér að endurtaka það sem ég sagði á fésbókinni;

Sigrún þessi er líklega velheppnaðasta internettröllið í sögu veraldarvefsins. Hún er álíka stereótýpa 101 liðsins og Magnús bóndi í meðförum Ladda var/er fyrir afdankaða afdalabændur. Ég neita sem sagt að trúa því að þessi manneskja sé til í raun og veru. En ef hún er til, endilega á þing með hana! Upp á borðið með þetta allt saman :).

 

Annars vorum við hjónakornin að koma úr fimmtugsafmæli sr. Kristjáns, yndisleg stund með skemmtilegu fólki.  Takk fyrir okkur kæru hjón. Og krakkarnir þeirra auðvitað líka, takk takk :)

Í morgun fór ég í Landakirkju og kvaddi Jónu Ólafs, yndislega konu og samstarfsfélaga. Það var erfitt. 

Man.Utd. hafði þetta á lokamínútunni gegn liðinu mínu.  Húsbandinu og Daníel til mikillar ánægju og ég verð að segja að mér létti talsvert, heimilisfriðnum borgið.  En okkar tími mun koma Sunderland :)

 


Gaui bæjó

Guðjón Hjörleifsson var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til nokkuð langs tíma, eða í heil þrjú kjörtímabil og þegar hann hætti loks þá tóku við svo tíð bæjarstjóraskipti að það minnti helst á nýafstaðinn farsa í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Hann skokkaði þá inn á Alþingi til skamms tíma en hann er alltof góður fyrir þann sirkus Whistling

Þessi söngur var saminn í eitt skiptið sem við "reyndum" að kveðja hann. Auðvitað urðum við að halda kveðjupartý fyrir hverjar kosningar, ef hann skyldi nú tapa og hætta.  Þetta var líklegast samið vorið 1998 og gott ef ég reyndist ekki bara forspá þarna í lokin því í dag rekur Gaui fasteigna- og skipasöluna Heimaey, að ógleymdum Gleðibanka Vestmannaeyja Cool

Þetta lag er að sjálfsögðu sungið við Maístjörnuna!

 

 

Vaff-stjarnan

 

Ó hve létt er þitt skóhljóð

og hve lengi ég beið þín

en svo léttist loks lundin

er þú lítur til mín

En þá gólar þinn gemsi

og það er ekkert grín

að reyna að keppa við farsíma

þú ert horfinn úr augsýn

 

Það eru erfiðir tímar

allir fluttir á brott

nema Oddur og Eggert

þeim finnst framtíðin flott

og þó stofnir þú ÚV

alls kyns útgerðarplott

þá kann enginn það að meta

það sem þú þeim gerir gott

 

En í kvöld lýkur vetri

sérhvers vinnandi manns

og nú bráðum skín Vaffið

Gerða býður í dans

Og ef Vaff- listinn vinnur,

Gaui hefur þann sjans

að skipta sjálfur bara um skoðun,

fara' í fasteignasölubrans


Til Kristínar Eggertsdóttur

Kristín Eggerts vann í fjölmörg ár í Ráðhúsi Vestmannaeyja, að mestu við bókhaldsdeildina. Kristín var sjarmerandi og hörkudugleg kona og gerði mikið fyrir móralinn á vinnustaðnum. Þessi söngur var saminn til hennar þegar hún flutti sig yfir Stakkagerðistúnið yfir í Sparisjóðinn. Hann skýrir sig sjálfur.

Kristín lést í fyrra eftir erfið veikindi.  Heart

 

Kveðjusöngur Kristínar (Að lífið sé skjálfandi...)

Hún Kristín er komin í Sparisjóð

Hún Kristín, alltaf svo sæt og góð

Við syrgjum það að hún burtu fór

og segjum öll svo í einum kór:

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Hjá okkur kviknaði eitt sinn von

að kæmi hér Guðjón vor Hjörleifsson

að færa okkur jakka og buxnapar

því ákveðin Stína í þessu var

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Nú telja má tálvon og vafasamt

að takist að fá þennan fataskammt

því Kristín er farin á aðra vakt

hún fékk þar svo þrælfína buxnadragt

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Og hver mun hér teningum kasta nú

með Áka í hádegi og hana nú

Já, vandfyllt verður víst vinnan sú

sem vann af hendi sú góða frú

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Þó þykir það sýnt að hér sakni helst

sá sem með henni sat hér mest

Nú verður að sættast við annan sið

hann Maggi og eiga við Önnu Frið

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

 

 

           


Tónleikar, nunnur og smiður

Ég var að skutla unglingnum aftur í partý niðri í Skvísusundi.  Þar er heljarinnar grímuball í gangi sem er uppskeruhátíð Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Hann var rekinn öfugur heim, grímubúningslaus eins og hann var, svo hann klæddi sig upp sem afi sinn - Gústi Hregg eldri, í vinnugalla og skóm með stáltá og vinnuhanska.  Í anddyri Pipphússins var sægur af nunnum og svo mátti sjá þar líka fjallmyndarlegan hippa.

Unglingarnir fá að vera með fram að miðnætti, auðvitað verða þau að fá að fagna líka.

Styrktarfélagatónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja voru sem sagt í dag og gæsahúðin aðeins að hjaðna hjá mér.  Hvað eftir annað risu hárin á handleggjunum og tárin spruttu fram í augun.  Tónlistin var mögnuð, 40 frábærir tónlistarmenn undir stjórn Jarls Sigurgeirssonar.  Svo verður auðvitað að viðurkennast að ég var að rifna úr stolti yfir unglingnum en hann og 9 jafnaldrar hans eru nýju vaxtarbroddarnir í sveitinni, brumin sem þarf að hlú að og halda í.  Jarl stendur sig frábærlega í því. Það er ekkert auðvelt að vera unglingur og vera í "nörda"áhugamáli eins og lúðrasveit. Enda er minn ekkert að auglýsa það.  Þið segið engum frá.

Annars er nokkuð til í því sem sagt hefur verið, við Eyjamenn erum nördar.  Hvar annars staðar er vinsælasta íþróttin skák og flottasta hljómsveitin Lúðrasveitin W00t


Bara eitt orð....

.....Einhugur.

 

Sjá http://einhugur.blog.is/blog/einhugur/

 

 


Meðan smælkið fór í bíó með frændfólkinu

Var góð hugmynd að verja 40 mínútum í smá göngutúr.

Að ganga með kulið í fangið á fallegum en köldum haustdegi, arka niður í Herjólfsdal og svo aðeins meðfram Ofanleitishamrinum

Fékk mig til að stilla mig af og safna orku helgarinnar saman á einn stað

Að horfa á brjálaðan sjóinn lemja klettana, segjandi, ef þú ert ekki að abbast upp á mig læt ég þig í friði

Engir fuglar á ferð en fullt af kolsvörtum krækiberjum sem sögðu við mig, þú misstir af okkur í haust en við komum aftur að ári

Vinaleg andlit fólksins - bæjarbúa, misjafnlega kunnuglegra - sem óku fram hjá í sunnudagsbíltúrnum sögðu mér að við værum í þessu öll saman

Blásturinn í andlitið fékk mig til að fókusa inn á við, finna punktinn innra með mér og allt í einu skipti allt og ekkert  máli

Og ég fann allt í einu

að ég er falleg

að ég er góð

að ég er öflug

 

Þessi náttúra er mögnuð.


Til Adda Sigurvins (2003 eða 2004)

Andrés Sigurvinsson, leikari, leikstjóri, kennari með meiru, bróðir besta knattspyrnumanns allra tíma á Íslandi, núverandi verkefnisstjóri íþrótta- forvarna- og menningarmála í Árborg og fyrrverandi framkvæmdastjóri fræðslusviðs Vestmannaeyja er með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst.

Þetta ljóð var ekki samið til hans sem kveðjuljóð heldur bað hann mig um ádrepu til að nota þegar hann var veislustjóri hjá gleðskap hjá ÍBV að mig minnir.  Á þessum tíma voru efasemdir um að Andrés ætti erindi sem stjórnandi íþrótta- og fræðslumála (um menningarhlutann deildi enginn að hann væri mjög hæfur).  Addi var einn af þeim framkvæmdastjórum sem ráðnir voru í fellibylnum sem geysaði í Vestmannaeyskum stjórnmálum á síðasta kjörtímabili, var sem slíkur umdeildur, en ég held að engum blandist hugur um að hann ýtti af stað nauðsynlegum og þá óvinsælum breytingum sem hafa sannað sig í dag.

Þetta er sem sagt til Adda vinar míns Heart

Að sjálfsögðu er þetta sungið við lagið Göllavísur Cool

 

 

Andrés hann var einn af okkar peyjum

sem aldrei kannski boltafótinn fann

við hæversklega orðum það og segjum

hann ýmsa aðra hluti betur kann

hann ýmsa aðra hluti betur kann

 

Sprelligosi er hann Andrés okkar

að spyrja að ýmsum málum kann hann vel

en stuttbuxur og langir þröngir sokkar

jú það færi honum reyndar nokkuð vel

það færi honum reyndar nokkuð vel

 

Svo það má bara byrja

að spá í það og spyrja

hvort íþróttamál eyjamanna eigi nokkra von

fyrst stjórinn hann er kjáni

jú kannski málin skáni

fyrst kominn er til framkvæmdanna Sigurvinsson

 


Sálnaveiðar

Hjá mér bönkuðu í dag tveir myndarlegir karlmenn, töluðu bjagaða íslensku og báðust velvirðingar á því.  Sögðust vera aðeins um skamma stund hér á eyjunni. Báðir voru með svartar velktar bækur í hendi, mikið lesnar biblíur.  Báðu mig um örfáar mínútur til að segja mér frá spádómunum sem væru einmitt að rætast um þessar mundir eins og allir mega sjá og heyra.

Ég hummaði fram af mér, sagðist vera frekar bissí. Vottarnir (þeir kynntu sig ekki sem votta Jehóva en báru það með sér) duttu ekki af baki heldur buðust til að sýna mér ritningarstaði í biblíunni svo ég gæti nú lesið sjálf.  Eins konar heimalærdómur fyrir bissí húsmóður í vesturbænum. Ég hummaði það fram af mér líka, meðvituð um þá lífsreynslu mína að litlifingur í átt að Votta þýðir allur handleggurinn næstu vikurnar.  Hálfvegis skellti hurðinni á myndarlegar ásjónur þeirra.

Armageddon er greinilega hafið og verið að safna saman síðustu villuráfandi iðrandi sálunum.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband