Fleiri kveðjuljóð til vinnufélaga -Kristín Jóna 1996

Allmörg kvæði hafa orðið til við brottför vinnufélaga þau tæpu 17 ár sem ég hef starfað í Ráðhúsi Vestmannaeyja.

Þegar Kristín Jóna vinkona mín ákvað að flytja á suðvesturhornið átti ég mjög erfitt, ég var ekki bara að missa vinnufélaga heldur góða vinkonu í burt. Hún er enn vinkona mín en það verður að játast að samskiptin eru umtalsvert fátíðari.  Ég sakna hennar ennþá alveg rosalega mikið.

Þetta ljóð er sungið við Eyjan mín bjarta (Gylfi Ægis). 

Kveðjuljóð Kristínar Jónu 

Kristín mín kæra við kyrjum þér söng

því kveðjustund kemur senn

við sakna munum þín síðkvöldin löng

er sumblum hér síðar starfsmenn

Við átt höfum saman yndisleg ár

við allskyns amstur og bras

Og öll við fellum nú yfir því tár

að heyr' aldrei í hádegi þras

 

Núna Guðni kokkur vel

getur byrlað oss í hel

ekkert vit við höfum á

hvort matinn borða má

 

Fyrst Þráinn sú frekja þig flytur á brott

þá finnst okkur hinum sko rétt

að senda hann til L.A. að meika það flott

en þú kemur aftur ólétt

Við treystum því vina og trúum á það

að togi þig Eyjarnar í

því Hrefna og Hera þær fóru af stað

en heim þó snéru á ný

 

Því að leyfi launalaust

þú að líkindum nú hlaust

og aftur snýrð því heim

þú fylgir hinum tveim

 

Kristín mín kæra, við kyrjum þér söng

því kveðjustund kemur senn

við sakna munum þín síðkvöldin löng

er sumblum hér síðar starfsmenn


Don't go wasting your emotions....

...Daníel horfði spenntastur allra heimilismanna á leikinn á móti Hollandi.  Eftir fyrsta markið var hann farinn að tauta í barm sér "Áfram Holland".  Í lokin var hann búinn að ganga í gegnum allt sorgarferlið og orðinn sáttur við niðurstöðuna.

Held að margir Íslendingar tauti í barm sér um þessar mundir "Áfram-eitthvað-bévítans-land-annað-en-þetta-guðsvolaða-skammarlega-sker".

Ég hins vegar hef ekki glatað neinu af minni ættjarðarást.  Ég get ekki séð að Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson, Dettifoss og Geysir hafi neitt með hrun fjármálamarkaðarins að gera. Ég neita ennfremur að taka þessa ábyrgð á mig eins og mér sýnist margir landsmenn gera.  Það er talað um að "við" höfum tapað áreiðanleika og mannorði, að "við" verðum að axla ábyrgðina.

Ég ætla ekki að axla neina andskotans ábyrgð á þessu. Þetta er hvorki í mínum verkahring né á minni ábyrgð.  Ég var ekki í neinni fjandans útrás, ég hef aldrei verslað með hlutabréf, ekki er ég í pólitík og ég er ekki einu sinni með bílalán, hvað þá myntkörfulán. 

Ég hef nóg af verkefnum sem ég ber ábyrgð á. Um þetta gildir æðruleysisbænin.

 

... Í dag fór ég að "gráta í rangri jarðarför" eins og Thelma vinkona mín og samstarfskona orðaði það og var reyndar búin að spá fyrir. Þetta er andstyggilegt starf stundum.  Að auki verð ég að fara  að stokka upp í forgangsröðinni hjá mér. Það dugar ekki að varpa ábyrgðinni úr starfinu á börnin mín, ekki frekar en fjármálagúrúarnir mega varpa ábyrgðinni á fjármálakreppunni á mig.

...Svo ég tók ábendingum vina minna og horfði á Mamma mia.  Og fór allmörg ár aftur í tímann og sá mig og Siggu Gróu vinkonu fyrir mér með handþeytara mæðra okkar, dansandi og skoppandi, hún var Agnetha og ég var Anni-Frid.  Það er staðreynd, þessi mynd er á við 4 gleðipillur og 5 grátköst.

...Held ég sé hætt í skólanum í bili, orðin sem sagt temporary graduate drop-out.

...Og á mánudaginn förum við "einhverfubarnaforeldrarnir" í Eyjum í blaðaviðtal í Fréttum. Erum að fara að stofna formlegt félag.  Miklu meir um það síðar.

... lay all your love on me.


Páll Einarsson kvaddur

Starfsfélagi minn, Páll Einarsson fjármálastjóri (áður fyrr bæjarritari til margra ára) kvaddi vinnustaðinn á miðvikudaginn.  Hann fékk köku og brauðtertu (og við hin auðvitað líka), fallegt málverk frá Vestmannaeyjabæ og kveðjugjöf frá okkur starfsmönnum (úttekt í golfverslun Wink).

Það er eftirsjá að Palla, við erum búin að þekkjast í ansi mörg ár.  Svo ég kvaddi hann með eftirfarandi ljóði:

 

Ég er svo hissa á því að þú sért hættur

Ég hefði viljað hafa þig

Hvernig verður skaði þessi bættur?

Ég hreinlega er að missa mig

 

Ég hef þekkt þig alveg hérna síðan

seint um síðastliðna öld

Og synt hef með þér strauminn stríðan

og stútað með þér brennivíni um kvöld

 

Og stundum varstu mig að pirra

svo stóð ég steinhissa og bit

En samt mér finnst það vera firra

að farir þú á farfuglanna vit

 

Ég er svo undrandi að þú skulir velja

óvissu í staðinn fyrir mig

Ég er agndofa eins og úrill belja

En það verður hver að velja fyrir sig

 

Ég er svo hissa á þvi að þú sért hættur

Ég hefði viljað hafa þig

Það hljómar í hausnum á mér laglína með þessu ljóði en ég lagði ekki í að syngja það fyrir hann kl. 10 að morgni. Ég hlýt að hafa stolið því einhvers staðar því ég er ekki vön að semja lög.  En ég geymi það samt til betri tima.

 

Ég ætla smám saman að tína hér inn ljóð sem ég hef bögglað saman undanfarin ár Joyful


Það sem upp á vantar...

Ég held að með Olweusar áætlunum sé farið að vinna ágætlega úr eineltismálum í grunnskólum landsins - þegar þau komast upp.  Kannanir sýna (a.m.k. hér) að dregið hefur úr einelti síðan farið var að vinna með Olweus.

Það sem upp á vantar og hefur gleymst... er að það þarf að hjálpa þeim sem lenda í einelti til að vinna úr þeirri reynslu. Það er ekki nóg að stöðva eineltið og svo eiga allir bara að vera vinir þar eftir.

Þeir sem verða fyrir einelti stríða við afleiðingar löngu eftir að því lýkur. Ef ekki er unnið úr því á réttan máta getur það haft mjög alvarlega hluti í för með sér.

Ég er hrædd um að þennan pakka vanti í áætlunina og hef verulegar áhyggjur af því.


mbl.is Ætlaði að pynta þau og drepa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki má...

Það er margt sem mann langar að blogga um.  Af augljósum ástæðum gerir maður það ekki.

Ég reyni að stilla frásögnum af heimilisfólki í hóf. Vissulega hef ég sagt frá einhverfu stúfsins míns en reyni að gera það á hófstilltan hátt. Hann veit sjálfur að hann er einhverfur og við ræðum það oft að sumir þættir hegðunar hans og liðanar eigi rót sína í einhverfunni.

Mig myndi langa að segja sögu af slæmu einelti í grunnskóli en af tillitsemi við viðkomandi þolanda sem er mér vægast sagt mjög tengdur geri ég það ekki. En ég er á leiðinni að senda söguna til Ingu Baldurs.  Allir að styðja landssamtökin hennar http://ingabaldurs.blog.is/

Mig langar að svara fólki á blogginu sem fullyrðir að allir félagsráðgjafar og starfsmenn barnaverndarnefnda séu með hafragraut í heilastað. En ég er ekki í vinnunni núna svo ég geri það ekki.

Og af augljósum ástæðum tala ég ekki um vinnuna mína nema á mjög almennan máta.

Held að það sé ágætis vinnuregla að skrifa um það sem ég myndi án hiks tala um við kvöldverðarborðið en e.t.v. jafnvel pússa það dálítið til. Maður lætur kannski eitthvað flakka í þröngum hópi sem ekki á erindi á veraldarvefinn.

Vona að ég hafi ekki brotið þá reglu hingað til.

 Gústi minn er í Þorlákshöfn um helgina, á Landsmóti Lúðrasveita. Sakna hans, eins og alltaf þegar hann er í burtu. Ég vil hafa unglinginn minn heima um helgar. Eigingjarna mamma.


Mánudagslegur sunnudagur

Það er mánudagur í mér í dag.  Of margt ömurlegt í gangi til að þetta geti flokkast sem sunnudagur.

Veðrið er hundleiðinlegt en ég er að reyna að hemja neikvæðnina.  Unglingurinn minn er farinn að gera grín að mér. Í gær sagði hann: "Það eina sem er meira einkennandi við haustið en skólabyrjun, æfingapása í fótboltanum og vonda veðrið er þetta:  nöldrið í mömmu yfir veðrinu". Blush

Mér leiðist að þurfa að nota alla laugardaga og alla sunnudaga í að læra.  En ég á ekki aðra kosti.  Þó ég hafi leyfi yfirmanns til að stunda nám með vinnunni er svo brjálað að gera að ég hef engan möguleika að læra í vinnunni. Ég get því sáralítið verið með ormagormunum mínum, sendi þann litla til frænda síns í næstum allan dag á meðan unglingurinn tiplaði á tánum í kringum mig og baðst velvirðingar á því að yrða á grimma, annars hugar móður sína. Skyldi annars vera fræðilegur möguleiki á því að ná aðferðafræðikúrs á framhaldsstigi í Háskóla eingöngu með því að lesa námsefnið (fyrirlestrarnir eru ekki teknir upp Angry)? Og ekki langar mig að þvælast til Reykjavíkur í þessu veðurfari. Nei annars, Halo ekki nöldra yfir veðrinu. 

Allar myndirnar mínar frá þessu ári eru horfnar úr tölvunni og ég var ekki búin að senda þær í framköllun.  Allar myndirnar frá Kanarí, systkinamótinu í sumar, þjóðhátíðinni. Einu myndirnar sem eru eftir eru þær sem eru hér á bloggsíðunni.  Langar að skæla.

 

Mikið er lífið annars yndislegt.  Ég á þak yfir höfuðið og yndisleg börn.


31. ágúst 2003....

.... 10 árum eftir andlát mömmu fæddist lítill drengur í Reykjavík.

Hann fékk nafnið Lárus Breki og er Bjarnason. 

 

Til hamingju með afmælið Lárus frændi, og þið auðvitað líka, Bjarni og Hafdís, til hamingju með stráksa litla (stóra) Heart

 

Þið fáið eitt gamalt og gott með Fredda og félögum

http://www.youtube.com/watch?v=58CJih1iYC0&feature=related


31. ágúst 1993....

.... er ástæðan fyrir hinum ljúfsáru minningum (þ.e. sára hlutanum) sem ég skrifaði um í gær.


Fyrir 15 árum síðan kom Jóhanna systir til mín upp á spítala rétt um hádegisbil. Tilefnið var ekki eingöngu að kíkja á litla nýfædda strákinn minn heldur hafði hún fengið það hlutskipti að segja litlu systur sinni að mamma okkar hefði dáið þá fyrr um morguninn.

Mamma var með heilaæxli, líklega afleiðing heilablóðfalls 1976 því hún varð flogaveik í kjölfarið en það uppgötvaðist ekki fyrr en 1990.  Svo á sextugsafmælisdaginn sinn, daginn eftir að hafa eignast sitt 10. barnabarn kvaddi hún þennan heim. Þó ekki fyrr en Ásta systir hafði sagt henni að það væri kominn lítill drengur í Vestmannaeyjum.

Enginn veit hvort hún var að bíða eftir afmælisdeginum sínum til að kveðja eða barnabarninu. Eða hvort þetta var allt saman tóm tilviljun.

Nokkrum dögum síðar sat ég ein heima, var að reyna að strauja barnaföt en aðallega sat ég og hágrét.  Það var verið að jarða mömmu mína norður í Hrútafirði en ég treysti mér ekki svona nýborin og með lítinn angalanga, aðallega treysti ég mér ekki tilfinningalega. Svo ég sat bara ein heima og grét. Og hlustaði á þetta lag:

http://www.youtube.com/watch?v=Ikc29LdXAFY&feature=related

 

Villi var í miklu uppáhaldi hjá mömmu og þá ekki síst þetta lag.

Mamma fær sem sagt netknús dagsins í dag Kissing

 

P.s. lagið er til að hlusta á, þetta vídeóbrot er ekki eftir mig og tengist ekki mér eða minni fjölskyldu á nokkurn hátt.


30. ágúst 1993....

... fyrir 15 árum síðan var ég uppi á fæðingarstofu á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, búin að vera með hríðar frá því á miðnætti og það bólaði ekkert á frumburðinum. 

Við vorum orðin talsverð leið og ekki síst á panflautu músík ljósmæðranna svo kveikt var á útvarpinu.

 Í útvarpinu hljómaði þetta lag

http://www.youtube.com/watch?v=chysEoANK7c

Sem var ákaflega vinsælt á þessum tíma. Við höfðum verið að rúnta á bíl tengdaforeldra minna (áttum ekki bíl þá) kvöld eftir kvöld í lundapysjuleit og tilraun til að koma barninu af stað sem var komið 10 daga fram yfir þegar hér er komið sögu. Og í útvarpinu var þetta lag ALLTAF í gangi. 

Yndislegt lag sem í dag vekur með mér mjög ljúfsárar tilfinningar. Segi nánar frá því á morgun hvers vegna það eru svona blendnar tilfinningar sem vakna.

 Kl. 13.00 þennan sama dag skaust lítill þreyttur angi í heiminn.  Hann er 15 ára í dag, miklu stærri og sterkari en mamma sinn og fallegasti og flottasti drengurinn í alheiminum, (mögulega að bróður sínum meðtöldum).

 Í afmælisveislu vill hann fá nautasteik og bragðaref í eftirrétt. Og honum mun verða að ósk sinni.


Snökt

Crying  Gamli vinnustaðurinn minn.

Ekki að ég hafi unnið þar mjög lengi, var þar í nokkrar vikur, sumarið '86 að mig minnir.

Ágætis vinnustaður og margar skemmtilegar minningar.

 

Kom hins vegar ekkert oft sem kúnni þangað, þá fór maður oftar í Staðarskála. Sem brátt heyrir líka sögunni til. Stutt er síðan ég kom síðast í Staðarskála en líklega nokkur ár ef ekki áratugur síðan ég átti leið í Brúarskála.  

 

Það verður gaman að koma í nýjan veitingaskála en undarlegt að keyra aðra leið inn í Hrútafjörðinn.


mbl.is Brúarskáli í Hrútafirði rifinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband