Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Bara eitt orð....

.....Einhugur.

 

Sjá http://einhugur.blog.is/blog/einhugur/

 

 


Meðan smælkið fór í bíó með frændfólkinu

Var góð hugmynd að verja 40 mínútum í smá göngutúr.

Að ganga með kulið í fangið á fallegum en köldum haustdegi, arka niður í Herjólfsdal og svo aðeins meðfram Ofanleitishamrinum

Fékk mig til að stilla mig af og safna orku helgarinnar saman á einn stað

Að horfa á brjálaðan sjóinn lemja klettana, segjandi, ef þú ert ekki að abbast upp á mig læt ég þig í friði

Engir fuglar á ferð en fullt af kolsvörtum krækiberjum sem sögðu við mig, þú misstir af okkur í haust en við komum aftur að ári

Vinaleg andlit fólksins - bæjarbúa, misjafnlega kunnuglegra - sem óku fram hjá í sunnudagsbíltúrnum sögðu mér að við værum í þessu öll saman

Blásturinn í andlitið fékk mig til að fókusa inn á við, finna punktinn innra með mér og allt í einu skipti allt og ekkert  máli

Og ég fann allt í einu

að ég er falleg

að ég er góð

að ég er öflug

 

Þessi náttúra er mögnuð.


Til Adda Sigurvins (2003 eða 2004)

Andrés Sigurvinsson, leikari, leikstjóri, kennari með meiru, bróðir besta knattspyrnumanns allra tíma á Íslandi, núverandi verkefnisstjóri íþrótta- forvarna- og menningarmála í Árborg og fyrrverandi framkvæmdastjóri fræðslusviðs Vestmannaeyja er með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst.

Þetta ljóð var ekki samið til hans sem kveðjuljóð heldur bað hann mig um ádrepu til að nota þegar hann var veislustjóri hjá gleðskap hjá ÍBV að mig minnir.  Á þessum tíma voru efasemdir um að Andrés ætti erindi sem stjórnandi íþrótta- og fræðslumála (um menningarhlutann deildi enginn að hann væri mjög hæfur).  Addi var einn af þeim framkvæmdastjórum sem ráðnir voru í fellibylnum sem geysaði í Vestmannaeyskum stjórnmálum á síðasta kjörtímabili, var sem slíkur umdeildur, en ég held að engum blandist hugur um að hann ýtti af stað nauðsynlegum og þá óvinsælum breytingum sem hafa sannað sig í dag.

Þetta er sem sagt til Adda vinar míns Heart

Að sjálfsögðu er þetta sungið við lagið Göllavísur Cool

 

 

Andrés hann var einn af okkar peyjum

sem aldrei kannski boltafótinn fann

við hæversklega orðum það og segjum

hann ýmsa aðra hluti betur kann

hann ýmsa aðra hluti betur kann

 

Sprelligosi er hann Andrés okkar

að spyrja að ýmsum málum kann hann vel

en stuttbuxur og langir þröngir sokkar

jú það færi honum reyndar nokkuð vel

það færi honum reyndar nokkuð vel

 

Svo það má bara byrja

að spá í það og spyrja

hvort íþróttamál eyjamanna eigi nokkra von

fyrst stjórinn hann er kjáni

jú kannski málin skáni

fyrst kominn er til framkvæmdanna Sigurvinsson

 


Sálnaveiðar

Hjá mér bönkuðu í dag tveir myndarlegir karlmenn, töluðu bjagaða íslensku og báðust velvirðingar á því.  Sögðust vera aðeins um skamma stund hér á eyjunni. Báðir voru með svartar velktar bækur í hendi, mikið lesnar biblíur.  Báðu mig um örfáar mínútur til að segja mér frá spádómunum sem væru einmitt að rætast um þessar mundir eins og allir mega sjá og heyra.

Ég hummaði fram af mér, sagðist vera frekar bissí. Vottarnir (þeir kynntu sig ekki sem votta Jehóva en báru það með sér) duttu ekki af baki heldur buðust til að sýna mér ritningarstaði í biblíunni svo ég gæti nú lesið sjálf.  Eins konar heimalærdómur fyrir bissí húsmóður í vesturbænum. Ég hummaði það fram af mér líka, meðvituð um þá lífsreynslu mína að litlifingur í átt að Votta þýðir allur handleggurinn næstu vikurnar.  Hálfvegis skellti hurðinni á myndarlegar ásjónur þeirra.

Armageddon er greinilega hafið og verið að safna saman síðustu villuráfandi iðrandi sálunum.

 


Fleiri kveðjuljóð til vinnufélaga -Kristín Jóna 1996

Allmörg kvæði hafa orðið til við brottför vinnufélaga þau tæpu 17 ár sem ég hef starfað í Ráðhúsi Vestmannaeyja.

Þegar Kristín Jóna vinkona mín ákvað að flytja á suðvesturhornið átti ég mjög erfitt, ég var ekki bara að missa vinnufélaga heldur góða vinkonu í burt. Hún er enn vinkona mín en það verður að játast að samskiptin eru umtalsvert fátíðari.  Ég sakna hennar ennþá alveg rosalega mikið.

Þetta ljóð er sungið við Eyjan mín bjarta (Gylfi Ægis). 

Kveðjuljóð Kristínar Jónu 

Kristín mín kæra við kyrjum þér söng

því kveðjustund kemur senn

við sakna munum þín síðkvöldin löng

er sumblum hér síðar starfsmenn

Við átt höfum saman yndisleg ár

við allskyns amstur og bras

Og öll við fellum nú yfir því tár

að heyr' aldrei í hádegi þras

 

Núna Guðni kokkur vel

getur byrlað oss í hel

ekkert vit við höfum á

hvort matinn borða má

 

Fyrst Þráinn sú frekja þig flytur á brott

þá finnst okkur hinum sko rétt

að senda hann til L.A. að meika það flott

en þú kemur aftur ólétt

Við treystum því vina og trúum á það

að togi þig Eyjarnar í

því Hrefna og Hera þær fóru af stað

en heim þó snéru á ný

 

Því að leyfi launalaust

þú að líkindum nú hlaust

og aftur snýrð því heim

þú fylgir hinum tveim

 

Kristín mín kæra, við kyrjum þér söng

því kveðjustund kemur senn

við sakna munum þín síðkvöldin löng

er sumblum hér síðar starfsmenn


Don't go wasting your emotions....

...Daníel horfði spenntastur allra heimilismanna á leikinn á móti Hollandi.  Eftir fyrsta markið var hann farinn að tauta í barm sér "Áfram Holland".  Í lokin var hann búinn að ganga í gegnum allt sorgarferlið og orðinn sáttur við niðurstöðuna.

Held að margir Íslendingar tauti í barm sér um þessar mundir "Áfram-eitthvað-bévítans-land-annað-en-þetta-guðsvolaða-skammarlega-sker".

Ég hins vegar hef ekki glatað neinu af minni ættjarðarást.  Ég get ekki séð að Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson, Dettifoss og Geysir hafi neitt með hrun fjármálamarkaðarins að gera. Ég neita ennfremur að taka þessa ábyrgð á mig eins og mér sýnist margir landsmenn gera.  Það er talað um að "við" höfum tapað áreiðanleika og mannorði, að "við" verðum að axla ábyrgðina.

Ég ætla ekki að axla neina andskotans ábyrgð á þessu. Þetta er hvorki í mínum verkahring né á minni ábyrgð.  Ég var ekki í neinni fjandans útrás, ég hef aldrei verslað með hlutabréf, ekki er ég í pólitík og ég er ekki einu sinni með bílalán, hvað þá myntkörfulán. 

Ég hef nóg af verkefnum sem ég ber ábyrgð á. Um þetta gildir æðruleysisbænin.

 

... Í dag fór ég að "gráta í rangri jarðarför" eins og Thelma vinkona mín og samstarfskona orðaði það og var reyndar búin að spá fyrir. Þetta er andstyggilegt starf stundum.  Að auki verð ég að fara  að stokka upp í forgangsröðinni hjá mér. Það dugar ekki að varpa ábyrgðinni úr starfinu á börnin mín, ekki frekar en fjármálagúrúarnir mega varpa ábyrgðinni á fjármálakreppunni á mig.

...Svo ég tók ábendingum vina minna og horfði á Mamma mia.  Og fór allmörg ár aftur í tímann og sá mig og Siggu Gróu vinkonu fyrir mér með handþeytara mæðra okkar, dansandi og skoppandi, hún var Agnetha og ég var Anni-Frid.  Það er staðreynd, þessi mynd er á við 4 gleðipillur og 5 grátköst.

...Held ég sé hætt í skólanum í bili, orðin sem sagt temporary graduate drop-out.

...Og á mánudaginn förum við "einhverfubarnaforeldrarnir" í Eyjum í blaðaviðtal í Fréttum. Erum að fara að stofna formlegt félag.  Miklu meir um það síðar.

... lay all your love on me.


Páll Einarsson kvaddur

Starfsfélagi minn, Páll Einarsson fjármálastjóri (áður fyrr bæjarritari til margra ára) kvaddi vinnustaðinn á miðvikudaginn.  Hann fékk köku og brauðtertu (og við hin auðvitað líka), fallegt málverk frá Vestmannaeyjabæ og kveðjugjöf frá okkur starfsmönnum (úttekt í golfverslun Wink).

Það er eftirsjá að Palla, við erum búin að þekkjast í ansi mörg ár.  Svo ég kvaddi hann með eftirfarandi ljóði:

 

Ég er svo hissa á því að þú sért hættur

Ég hefði viljað hafa þig

Hvernig verður skaði þessi bættur?

Ég hreinlega er að missa mig

 

Ég hef þekkt þig alveg hérna síðan

seint um síðastliðna öld

Og synt hef með þér strauminn stríðan

og stútað með þér brennivíni um kvöld

 

Og stundum varstu mig að pirra

svo stóð ég steinhissa og bit

En samt mér finnst það vera firra

að farir þú á farfuglanna vit

 

Ég er svo undrandi að þú skulir velja

óvissu í staðinn fyrir mig

Ég er agndofa eins og úrill belja

En það verður hver að velja fyrir sig

 

Ég er svo hissa á þvi að þú sért hættur

Ég hefði viljað hafa þig

Það hljómar í hausnum á mér laglína með þessu ljóði en ég lagði ekki í að syngja það fyrir hann kl. 10 að morgni. Ég hlýt að hafa stolið því einhvers staðar því ég er ekki vön að semja lög.  En ég geymi það samt til betri tima.

 

Ég ætla smám saman að tína hér inn ljóð sem ég hef bögglað saman undanfarin ár Joyful


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband