Færsluflokkur: Bloggar

Rólegheit á síðasta þjóðhátíðardegi

Rólegt yfirbragð yfir öllu og öllum.  Þoka og úði í dalnum en allir hressir.  Lambalærið komið í ofninn hér á Búhamrinum.  Daníel tilkynnti föður sínum að í kvöld fengi hann dautt lamb að borða.

Gott að vita það.

 

CIMG2200  Herjólfsdalur um hálffimmleytið í dag.


Það er gaman á Þjóðhátíð :)

Já. Það er gaman á Þjóðhátíð.

Við erum að fara niður í dal - aftur.

Um leið og systir mín kemur hingað svo við getum fengið okkur einn írskan kaffisopa áður en ég fel barnagæsluna á 7 ára syni mínum í hendur 15 ára unglingnum og frænda hans og besta vini.

 

Skál.

See you tomorrow. Maybe.


Um a) Þjóðhátíð og b) einelti

a)

Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2008 hefst á morgun. Í dag er rigning og rok en mig minnir að vont veður á fimmtudegi þýði gott veður um hátíðina. Of gott veður (eins og var í gær) á fimmtudegi þýðir brjálað veður á hátíðinni.  Er það ekki annars?

Ein af hefðum Eyjamanna er að slást um að vera fyrstir að ná sér í stæði fyrir hvítu tjöldin og tilmæli eða fyrirskipanir þjóðhátíðarnefndar um að "tjöldun sé leyfð kl. 20.00 á fimmtudegi" er ekkert nema fáránlegt grín.  Það fóru nefnilega víst "allir" í gærkvöldi og tóku frá stæði.  Nema fjölskyldan sem ég giftist inn í. Það er nefnilega ein af hefðunum þar að þeir sem ráða ferðinni neita að taka þátt í slagnum.  Það eru yfirleitt svona einn til tveir sem malda í móinn og vilja fara af stað líka en niðurstaðan er alltaf sú að við skulum bara vera síðust og vera í ystu götunni. Með endatjald. Eða bara í hliðar-bak-götu.  Eins og alltaf.  Sem er líka ágætt.  Þegar upp er staðið.  Ég ætla eins og venjulega að reyna að anda inn um nefið og sætta mig við hefðirnar.  Ef illa fer þá tjöldum við bara á golfvellinum.

 

b)

Á vefsíðunni http://eyjar.net/ er búin að vera umræða (skrif) um tiltölulega nýja bók Sigurgeirs Jónssonar um viðurnefni í Vestmannaeyjum. Sannast sagna er fólk hér í Eyjum búið að vera í sjokki undanfarnar vikur yfir þessari útgáfu á samantekt á viðurnefnum sem þykir vægast sagt á köflum meiðandi, rætin og óviðeigandi.

Ég las svargrein Sigurgeirs og fannst svör hans ekki slæm. Ég er þó ekkert viss um að sumum hlutaðeigandi þyki þau fullnægjandi, ekki frekar en fórnarlömbum eineltis þyki mikið til þess koma þegar gerandinn segir "bara djók" "O.k. sorrí, maður". Eða þegar viðhlæjendurnir segja "en ég gerði ekki neitt!"  

Hins vegar held ég að þessi bók, fyrst hún "þurfti" að koma út, sé ágætis kjaftshögg á okkur.  Auðvitað er stigsmunur á því sem þú segir yfir kaffibollanum og því sem þú setur á prent en það er þó bara stigsmunur en ekki eðlismunur. Það að leyfa slíkri rætni sem kemur fram í mörgum viðurnefnum hér að viðgangast er blettur á góðu samfélagi. 

Eins og Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur og Eyjamaður orðaði það svo vel í grein sinni: "samfélagið í Eyjum einkennist af undarlegri blöndu af samstöðu og greiðvikni annars vegar og dómhörku og miskunnarleysi hins vegar"

Okkar allra er að minna hvert annað á að draga úr dómhörkunni og miskunnarleysinu. Það gerum við m.a. með því að hætta að vera viðhlæjendur þeirra sem sletta fram óviðeigandi athugasemdum og rætni.  Einelti er ekkert djók.


Myndir frá systkinamótinu eru komnar inn :)

Við fórum fyrir hálfum mánuði á heimaslóðir til að hittast, systkinin. Erum að reyna að koma okkur upp hittingavenju, hittast lágmark 1x, helst 2x á ári og þá a.m.k. í annað hvert skipti með börnunum.

Að þessu sinni voru Bibbi og Sigrún í Eyjanesi, ásamt bústaðsbúunum Bjarna og Hafdísi gestgjafar.  Þrátt fyrir talsverða úrkomu var ekki mikill vindur og tjöldin láku ekki neitt.  Fengum svo sól og blástur á sunnudagsmorguninn svo allt var tekið þurrt niður.

 Þetta var eins og alltaf, óviðjafnanlega gaman og ekki síst fyrir krakkana. Svo er alltaf svo heilandi að flækjast á heimaslóðir, ráfa um þúfurnar þar sem maður lék sér sem krakki, skoða gömlu traktorana og Landroverinn gamla sem var einmitt bíllinn sem ég lærði fyrst að keyra.

 Setti inn í albúmið nokkrar vel valdar myndir ef ættingjarnir skyldu slysast inn á síðuna :) 

 

(Skamm Þröstur. En þú kemur bara næst).


Var að tala við unglinginn...

... og hann var hinn rólegasti.  Ég var reyndar svo heppin að hann var nýbúinn að leggja á, (gleymdi bara að segja mömmu sinni frá þessuCool), annars hefði ég fengið hjartaáfall yfir sjónvarpsfréttunum.

 Jú jú, hann prófaði þetta tæki í fyrradag.  Það var allt í lagi með það þá sem sagt.

 

En er þetta ekki orðið full algengt með þessi tívólíslys?


mbl.is Íslendingar heilir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fékk þetta í tölvupósti...

... og vakti það reyndar meiri áhuga hjá mér en venjubundnari póstsendingar um Viagra og tippastækkanir: 

 

Bacheelor, MasteerMBA, and Doctoraate diplomas available in the field of your choice that's right, you can even become a Doctor and receive all the benefits that comes with it!

Our Diplomas/Certificates are recognised in most countries    
   
No required examination, tests, classes, books, or interviews.    
     
** No one is turned down
** Confidentiality assured      
       
CALL US 24 HOURS A DAY, 7 DAYS A WEEK
     
For US: 1-718-989-5740
Outside US: +1-718-989-5740
  
"Just leave your NAME & PHONE NO. (with CountryCode)" in the voicemail    
  
our staff will get back to you in next few days     
     
     

Hvurn fjandann er maður að baksa þetta ár eftir ár að þykjast vera að mennta sig þegar maður þarf ekki einu sinni að kaupa kókópuffskassa til að fá þetta upp í hendurnar W00t


Mamma skvísa

Ég var að grafa upp gamlar myndir til að skanna inn og senda inn á Reykjaskólasíðuna (en ef það var ekki komið nógu skýrt fram þá verður Reykjaskóla-reunion í sumar fyrir þá sem voru þar 1980-1982).

Þá fann ég þessa mynd

 

Ég og Magga

 

Þetta er ég (til vinstri á myndinni í bleikum kjól) 15 ára gömul í búningaflippi heima hjá Siggu Gróu vinkonu.  Á þessum tíma var ég hryllilega meðvituð eins og 15 ára krakkar auðvitað eru, uppfull af komplexum og fannst ég vera hryllilega feit.  Þegar ég fann myndina starði ég á hana, vá, hvað ég myndi gefa fyrir að vera með þennan vöxt í dag Pouty

Ég sýndi unglingnum mínum (sem er einmitt rétt að verða 15 ára) myndina í von um upphrópanir og aðdáunarmerki. Hann horfði á myndina, síðan á mig, aftur á myndina og svo aftur á mig.  Í svip hans var hrúga af hneykslun með dash af vorkunnsemi. Svo spurði hann: Hvað vantaði í toppstykkið á þér þarna?

Kannski er mamma bara best eins og hún er. Mjúk með toppstykkið heilt.

Við hliðina á mér stendur hún Magga sem var vinkona og vinnufélagi okkar þetta sumar (1982). Hvar ert þú í dag Magga mín?


Loksins Kanarímyndir

Já, lét loksins verða af því að lesa inn nokkrar myndir úr vorfríinu okkar. Við systurnar (tvær af þremur) fórum nebblega með fjölskyldurnar á Kanarí um páskana og ekki nóg með það heldur voru þar líka seinni vikunna tveir bræður okkar  (af fjórum) með sínar (ekki svo litlu) fjölskyldur auk þess sem tengdaforeldrar mínir slógust í hópinn líka seinni vikuna.

Alveg yndislegur endir á erfiðum vetri.  Það var nokkuð snjólétt eftir heimkomuna :)

 


Reykjaskólaendurfundir í sumar

Ég man.... .... snjókast og snjóslagir.... sundlaugarpartý í blíðviðri, hlaupið yfir í matsal á sundfötunum til að fá sér að drekka og svo aftur í sund..... tússlitir settir í hár til að búa til strípur..... bíósýningar, t.d. Ormaflóðið, kokkurinn hótaði að hafa hakk og spaghettí í matinn..... tónleika Utangarðsmanna og Bubba (ég á ennþá eiginhandaráritanirnar)..... frægðarför í Laugardalshöllina þar sem við í ósamstæðum og litríkum fimleikabúningum slógum í gegn undir handleiðslu Jónínu með tónlistina úr Fame dynjandi..... helgarferðir til Reykjavíkur, Hlemmur, 1001 nótt, Vinnufatabúðin og Hallærisplanið..... ég man líka snúðana hans Lóa, bestir í heimi..... eldhúsvaktir þar sem okkur var “kennt” að vaska upp og skúra.... kornfleks og hveitibrauð í morgunmat, til hátíðabrigða á sunnudögum cheerios og jafnvel cocoa puffs, sumir lögðu það á sig að vakna í morgunmat á sunnudögum!..... svínadallurinn sem hirti matarleifarnar eftir okkur... og stöku hnífapör þvældust með..... fyrstu ástina..... fyrstu ástarsorgina..... skólakeppni milli bekkja í handbolta, innanhúsfótbolta, körfubolta og allir tóku þátt.... leiksviðið í salnum, árshátíðir og 1. des. skemmtanir.... andaglas og draugasögur.... svítuna .... jafnvel Smókinn, þó ég byrjaði ekki fyrir alvöru að reykja fyrr en eftir RSK.... lestíma og vistartíma.... klíkur og stéttaskiptingu .....En man einhver eftir mér??

Fjölskylduhelgin framundan :)

Jæja, þá er þessi laaanga (frídagalausa) vika á enda og þó. Framundan er skemmtileg helgi í Vestmannaeyjum, fullt um að vera og í mínum huga ber þar hæst fjölskylduhátíðina okkar.  Vona að veðrið verði til friðs.

Birti hérna greinina mína sem birtist á Eyjamiðlunum (í prenti og á neti) í vikunni.  Samstarfsfólk mitt talaði um að þetta væri lúmskur Bakkafjöruáróður en ég veit ekkert hvað þau eru að tala um Whistling

En gaman að því að þetta er í dag mest lesna greinin á eyjar.net.  Me smá montin Cool

Svo, á morgun mætir maður í íþróttamiðstöðina til að blása upp blöðrur Smile 

 

STÖNDUM SAMAN – FJÖLSKYLDUHELGIN UM HVÍTASUNNUNA.

Ágætu bæjarbúar!

Um næstkomandi helgi, hvítasunnuhelgina, verður Fjölskylduhelgin haldin hátíðleg í 4. skipti. Það er árleg tilhlökkun hjá starfsmönnum Fjölskyldu- og fræðslusviðs að undirbúa hátíðahöldin enda skemmtileg og öðruvísi vinna með ótal sjálfboðaliðum, stofnunum og félagasamtökum. Fjölskylduhelgin er búin að festa sig í sessi sem ómissandi árlegur viðburður í bæjarlífinu þar sem boðið er upp á ýmis konar heilbrigða, skemmtilega og gjaldfrjálsa afþreyingu og höfðað til fjölskyldunnar að koma og skemmta sér saman.  Eins og áður tengjum við Fjölskylduhelgina við listviðburðinn List án landamæra þar sem við njótum listsköpunar fatlaðra og verður sú sýning opnuð í Íþróttamiðstöðinni við setningu hátíðarinnar.

Á það skal minnt að “fjölskylda” þarf ekki bara að vera hefðbundin kjarnafjölskylda með pabba, mömmu, börnum og bíl heldur erum við að tala um hvers kyns fjölskyldugerð. Það gæti t.d. verið einhleypa frænkan sem fær jafnvel systkinabörnin sín “lánuð”, afi og amma ein sér eða með barnabörnin og hin ýmsu kærustupör af öllum stærðum og gerðum. Í stuttu máli sagt, allir bæjarbúar.  Að þessu sinni reyndum við að huga að því að gera unglingunum meira til hæfis og var í því skyni leitað eftir hugmyndum úr unglingadeild Grunnskóla Vestmannaeyja. Þaðan komu margar góðar hugmyndir en ákveðið var að taka upp þá sem nefnd var oftast, þ.e. að grilla með fjölskyldunni. Fjölskylduhelginni lýkur því að þessu sinni með alls herjar grillveislu og samsöng á Stakkó þar sem  allir koma saman og gera það sem Eyjamenn kunna best, að syngja saman í einum kór.

Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er Stöndum saman.  Það er hlutverk fjölskyldna að standa saman í lífsbaráttunni og þeim verkefnum sem að höndum ber í gegnum æviferilinn.  Ef fjölskyldan stendur ekki saman í gegnum þykkt og þunnt, gegnum gleði og áföll, sundrast hún óhjákvæmilega.  Þar liggur ábyrgðin sannarlega á þeim fullorðnu sem setja stefnuna og taka ákvarðanir fyrir þá sem yngri eru. Þó að sjálfsögðu beri okkur að hlusta á raddir barnanna og leita eftir áliti þeirra miðað við aldur þeirra og þroska er það okkar uppalandanna að taka miserfiðar og misvinsælar ákvarðanir fjölskyldunni til heilla. Börnin okkar eru kannski ekki alltaf ánægð með kúrsinn sem tekinn er en þegar mörkin eru skýr og skilaboðin hreinskilin og sanngjörn fylgja börnin stefnunni sem við tökum.

Sem bæjarfélag verðum við líka að taka saman kúrsinn.  Við getum ekki öll ráðið ferðinni á þeirri vegferð sem liggur fyrir höndum. Rétt eins og börnin er það kannski hlutverk okkar almennu bæjarbúa að kvarta pínulítið og kveina, suða aðeins, setja okkur upp á móti og skammast út í “forráðamenn” okkar. En þegar upp er staðið veltur framtíð samfélagsins á samstöðu um þær ákvarðanir sem teknar eru. Líka um ákvarðanir sem falla ekki öllum í geð.

Ég óska öllum bæjarbúum innilega til hamingju með fjölskylduhelgina okkar og hvet alla til að kynna sér dagskrána og taka þátt í viðburðum helgarinnar. 

Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi Fjölskyldu- og fræðslusviðs.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband