Færsluflokkur: Ljóð

Gaui bæjó

Guðjón Hjörleifsson var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til nokkuð langs tíma, eða í heil þrjú kjörtímabil og þegar hann hætti loks þá tóku við svo tíð bæjarstjóraskipti að það minnti helst á nýafstaðinn farsa í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Hann skokkaði þá inn á Alþingi til skamms tíma en hann er alltof góður fyrir þann sirkus Whistling

Þessi söngur var saminn í eitt skiptið sem við "reyndum" að kveðja hann. Auðvitað urðum við að halda kveðjupartý fyrir hverjar kosningar, ef hann skyldi nú tapa og hætta.  Þetta var líklegast samið vorið 1998 og gott ef ég reyndist ekki bara forspá þarna í lokin því í dag rekur Gaui fasteigna- og skipasöluna Heimaey, að ógleymdum Gleðibanka Vestmannaeyja Cool

Þetta lag er að sjálfsögðu sungið við Maístjörnuna!

 

 

Vaff-stjarnan

 

Ó hve létt er þitt skóhljóð

og hve lengi ég beið þín

en svo léttist loks lundin

er þú lítur til mín

En þá gólar þinn gemsi

og það er ekkert grín

að reyna að keppa við farsíma

þú ert horfinn úr augsýn

 

Það eru erfiðir tímar

allir fluttir á brott

nema Oddur og Eggert

þeim finnst framtíðin flott

og þó stofnir þú ÚV

alls kyns útgerðarplott

þá kann enginn það að meta

það sem þú þeim gerir gott

 

En í kvöld lýkur vetri

sérhvers vinnandi manns

og nú bráðum skín Vaffið

Gerða býður í dans

Og ef Vaff- listinn vinnur,

Gaui hefur þann sjans

að skipta sjálfur bara um skoðun,

fara' í fasteignasölubrans


Til Kristínar Eggertsdóttur

Kristín Eggerts vann í fjölmörg ár í Ráðhúsi Vestmannaeyja, að mestu við bókhaldsdeildina. Kristín var sjarmerandi og hörkudugleg kona og gerði mikið fyrir móralinn á vinnustaðnum. Þessi söngur var saminn til hennar þegar hún flutti sig yfir Stakkagerðistúnið yfir í Sparisjóðinn. Hann skýrir sig sjálfur.

Kristín lést í fyrra eftir erfið veikindi.  Heart

 

Kveðjusöngur Kristínar (Að lífið sé skjálfandi...)

Hún Kristín er komin í Sparisjóð

Hún Kristín, alltaf svo sæt og góð

Við syrgjum það að hún burtu fór

og segjum öll svo í einum kór:

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Hjá okkur kviknaði eitt sinn von

að kæmi hér Guðjón vor Hjörleifsson

að færa okkur jakka og buxnapar

því ákveðin Stína í þessu var

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Nú telja má tálvon og vafasamt

að takist að fá þennan fataskammt

því Kristín er farin á aðra vakt

hún fékk þar svo þrælfína buxnadragt

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Og hver mun hér teningum kasta nú

með Áka í hádegi og hana nú

Já, vandfyllt verður víst vinnan sú

sem vann af hendi sú góða frú

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Þó þykir það sýnt að hér sakni helst

sá sem með henni sat hér mest

Nú verður að sættast við annan sið

hann Maggi og eiga við Önnu Frið

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

 

 

           


Til Adda Sigurvins (2003 eða 2004)

Andrés Sigurvinsson, leikari, leikstjóri, kennari með meiru, bróðir besta knattspyrnumanns allra tíma á Íslandi, núverandi verkefnisstjóri íþrótta- forvarna- og menningarmála í Árborg og fyrrverandi framkvæmdastjóri fræðslusviðs Vestmannaeyja er með skemmtilegri mönnum sem ég hef kynnst.

Þetta ljóð var ekki samið til hans sem kveðjuljóð heldur bað hann mig um ádrepu til að nota þegar hann var veislustjóri hjá gleðskap hjá ÍBV að mig minnir.  Á þessum tíma voru efasemdir um að Andrés ætti erindi sem stjórnandi íþrótta- og fræðslumála (um menningarhlutann deildi enginn að hann væri mjög hæfur).  Addi var einn af þeim framkvæmdastjórum sem ráðnir voru í fellibylnum sem geysaði í Vestmannaeyskum stjórnmálum á síðasta kjörtímabili, var sem slíkur umdeildur, en ég held að engum blandist hugur um að hann ýtti af stað nauðsynlegum og þá óvinsælum breytingum sem hafa sannað sig í dag.

Þetta er sem sagt til Adda vinar míns Heart

Að sjálfsögðu er þetta sungið við lagið Göllavísur Cool

 

 

Andrés hann var einn af okkar peyjum

sem aldrei kannski boltafótinn fann

við hæversklega orðum það og segjum

hann ýmsa aðra hluti betur kann

hann ýmsa aðra hluti betur kann

 

Sprelligosi er hann Andrés okkar

að spyrja að ýmsum málum kann hann vel

en stuttbuxur og langir þröngir sokkar

jú það færi honum reyndar nokkuð vel

það færi honum reyndar nokkuð vel

 

Svo það má bara byrja

að spá í það og spyrja

hvort íþróttamál eyjamanna eigi nokkra von

fyrst stjórinn hann er kjáni

jú kannski málin skáni

fyrst kominn er til framkvæmdanna Sigurvinsson

 


Fleiri kveðjuljóð til vinnufélaga -Kristín Jóna 1996

Allmörg kvæði hafa orðið til við brottför vinnufélaga þau tæpu 17 ár sem ég hef starfað í Ráðhúsi Vestmannaeyja.

Þegar Kristín Jóna vinkona mín ákvað að flytja á suðvesturhornið átti ég mjög erfitt, ég var ekki bara að missa vinnufélaga heldur góða vinkonu í burt. Hún er enn vinkona mín en það verður að játast að samskiptin eru umtalsvert fátíðari.  Ég sakna hennar ennþá alveg rosalega mikið.

Þetta ljóð er sungið við Eyjan mín bjarta (Gylfi Ægis). 

Kveðjuljóð Kristínar Jónu 

Kristín mín kæra við kyrjum þér söng

því kveðjustund kemur senn

við sakna munum þín síðkvöldin löng

er sumblum hér síðar starfsmenn

Við átt höfum saman yndisleg ár

við allskyns amstur og bras

Og öll við fellum nú yfir því tár

að heyr' aldrei í hádegi þras

 

Núna Guðni kokkur vel

getur byrlað oss í hel

ekkert vit við höfum á

hvort matinn borða má

 

Fyrst Þráinn sú frekja þig flytur á brott

þá finnst okkur hinum sko rétt

að senda hann til L.A. að meika það flott

en þú kemur aftur ólétt

Við treystum því vina og trúum á það

að togi þig Eyjarnar í

því Hrefna og Hera þær fóru af stað

en heim þó snéru á ný

 

Því að leyfi launalaust

þú að líkindum nú hlaust

og aftur snýrð því heim

þú fylgir hinum tveim

 

Kristín mín kæra, við kyrjum þér söng

því kveðjustund kemur senn

við sakna munum þín síðkvöldin löng

er sumblum hér síðar starfsmenn


Páll Einarsson kvaddur

Starfsfélagi minn, Páll Einarsson fjármálastjóri (áður fyrr bæjarritari til margra ára) kvaddi vinnustaðinn á miðvikudaginn.  Hann fékk köku og brauðtertu (og við hin auðvitað líka), fallegt málverk frá Vestmannaeyjabæ og kveðjugjöf frá okkur starfsmönnum (úttekt í golfverslun Wink).

Það er eftirsjá að Palla, við erum búin að þekkjast í ansi mörg ár.  Svo ég kvaddi hann með eftirfarandi ljóði:

 

Ég er svo hissa á því að þú sért hættur

Ég hefði viljað hafa þig

Hvernig verður skaði þessi bættur?

Ég hreinlega er að missa mig

 

Ég hef þekkt þig alveg hérna síðan

seint um síðastliðna öld

Og synt hef með þér strauminn stríðan

og stútað með þér brennivíni um kvöld

 

Og stundum varstu mig að pirra

svo stóð ég steinhissa og bit

En samt mér finnst það vera firra

að farir þú á farfuglanna vit

 

Ég er svo undrandi að þú skulir velja

óvissu í staðinn fyrir mig

Ég er agndofa eins og úrill belja

En það verður hver að velja fyrir sig

 

Ég er svo hissa á þvi að þú sért hættur

Ég hefði viljað hafa þig

Það hljómar í hausnum á mér laglína með þessu ljóði en ég lagði ekki í að syngja það fyrir hann kl. 10 að morgni. Ég hlýt að hafa stolið því einhvers staðar því ég er ekki vön að semja lög.  En ég geymi það samt til betri tima.

 

Ég ætla smám saman að tína hér inn ljóð sem ég hef bögglað saman undanfarin ár Joyful


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband