Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Gaui bæjó

Guðjón Hjörleifsson var bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til nokkuð langs tíma, eða í heil þrjú kjörtímabil og þegar hann hætti loks þá tóku við svo tíð bæjarstjóraskipti að það minnti helst á nýafstaðinn farsa í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Hann skokkaði þá inn á Alþingi til skamms tíma en hann er alltof góður fyrir þann sirkus Whistling

Þessi söngur var saminn í eitt skiptið sem við "reyndum" að kveðja hann. Auðvitað urðum við að halda kveðjupartý fyrir hverjar kosningar, ef hann skyldi nú tapa og hætta.  Þetta var líklegast samið vorið 1998 og gott ef ég reyndist ekki bara forspá þarna í lokin því í dag rekur Gaui fasteigna- og skipasöluna Heimaey, að ógleymdum Gleðibanka Vestmannaeyja Cool

Þetta lag er að sjálfsögðu sungið við Maístjörnuna!

 

 

Vaff-stjarnan

 

Ó hve létt er þitt skóhljóð

og hve lengi ég beið þín

en svo léttist loks lundin

er þú lítur til mín

En þá gólar þinn gemsi

og það er ekkert grín

að reyna að keppa við farsíma

þú ert horfinn úr augsýn

 

Það eru erfiðir tímar

allir fluttir á brott

nema Oddur og Eggert

þeim finnst framtíðin flott

og þó stofnir þú ÚV

alls kyns útgerðarplott

þá kann enginn það að meta

það sem þú þeim gerir gott

 

En í kvöld lýkur vetri

sérhvers vinnandi manns

og nú bráðum skín Vaffið

Gerða býður í dans

Og ef Vaff- listinn vinnur,

Gaui hefur þann sjans

að skipta sjálfur bara um skoðun,

fara' í fasteignasölubrans


Til Kristínar Eggertsdóttur

Kristín Eggerts vann í fjölmörg ár í Ráðhúsi Vestmannaeyja, að mestu við bókhaldsdeildina. Kristín var sjarmerandi og hörkudugleg kona og gerði mikið fyrir móralinn á vinnustaðnum. Þessi söngur var saminn til hennar þegar hún flutti sig yfir Stakkagerðistúnið yfir í Sparisjóðinn. Hann skýrir sig sjálfur.

Kristín lést í fyrra eftir erfið veikindi.  Heart

 

Kveðjusöngur Kristínar (Að lífið sé skjálfandi...)

Hún Kristín er komin í Sparisjóð

Hún Kristín, alltaf svo sæt og góð

Við syrgjum það að hún burtu fór

og segjum öll svo í einum kór:

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Hjá okkur kviknaði eitt sinn von

að kæmi hér Guðjón vor Hjörleifsson

að færa okkur jakka og buxnapar

því ákveðin Stína í þessu var

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Nú telja má tálvon og vafasamt

að takist að fá þennan fataskammt

því Kristín er farin á aðra vakt

hún fékk þar svo þrælfína buxnadragt

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Og hver mun hér teningum kasta nú

með Áka í hádegi og hana nú

Já, vandfyllt verður víst vinnan sú

sem vann af hendi sú góða frú

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

Þó þykir það sýnt að hér sakni helst

sá sem með henni sat hér mest

Nú verður að sættast við annan sið

hann Maggi og eiga við Önnu Frið

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

            Mikið lifandi skelfingar ósköp og undur, söknum við þín nú Kristín mín

 

 

 

           


Tónleikar, nunnur og smiður

Ég var að skutla unglingnum aftur í partý niðri í Skvísusundi.  Þar er heljarinnar grímuball í gangi sem er uppskeruhátíð Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Hann var rekinn öfugur heim, grímubúningslaus eins og hann var, svo hann klæddi sig upp sem afi sinn - Gústi Hregg eldri, í vinnugalla og skóm með stáltá og vinnuhanska.  Í anddyri Pipphússins var sægur af nunnum og svo mátti sjá þar líka fjallmyndarlegan hippa.

Unglingarnir fá að vera með fram að miðnætti, auðvitað verða þau að fá að fagna líka.

Styrktarfélagatónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja voru sem sagt í dag og gæsahúðin aðeins að hjaðna hjá mér.  Hvað eftir annað risu hárin á handleggjunum og tárin spruttu fram í augun.  Tónlistin var mögnuð, 40 frábærir tónlistarmenn undir stjórn Jarls Sigurgeirssonar.  Svo verður auðvitað að viðurkennast að ég var að rifna úr stolti yfir unglingnum en hann og 9 jafnaldrar hans eru nýju vaxtarbroddarnir í sveitinni, brumin sem þarf að hlú að og halda í.  Jarl stendur sig frábærlega í því. Það er ekkert auðvelt að vera unglingur og vera í "nörda"áhugamáli eins og lúðrasveit. Enda er minn ekkert að auglýsa það.  Þið segið engum frá.

Annars er nokkuð til í því sem sagt hefur verið, við Eyjamenn erum nördar.  Hvar annars staðar er vinsælasta íþróttin skák og flottasta hljómsveitin Lúðrasveitin W00t


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband