Færsluflokkur: Bloggar

It's alive!

ÉG ER KOMIN Í SUMARFRÍ FRÁ NÁMINU! 

Teningunum er kastað, sendi frá mér prófverkefnin í gær.  Nú er bara að sjá hvort þetta skilar tilætluðum einingum eða hvort ég verð felld á því að hafa sem hópstjóri hópverkefnis flæmt í burtu alla hina meðlimi hópsins svo ég sat ein uppi með súpuna.  Jæja, maður gerir ekki betur en maður getur.

Og ég vaknaði í með þá tilfinningu að ég væri endurfædd, það er líf að loknum skóla. Heilt sumar framundan með ekkert nema 100% vinnu og fjölskyldu. M.a.s. sunnudagaskólinn kominn í frí.

 

Svo mín fór að þrífa. Viti menn.  Hvað haldiði að ég hafi fundið undir stól inni í stofu?

 

Páskaeggjamálshátt.  Blush

 

Voru ekki páskarnir óvenju seint í ár ... eða var það öfugt?  Nei ég veit ekki hvað stóð á honum, hann hvarf upp í ryksuguna.   Örugglega eitthvað kjaftæði eins og "þokka býður þrifin hönd"  Whistling

 

Assgoti er fínt hérna núna. (það er lokað inn á skrifstofu og inn til unglingsins). 

Hvurn fjandann á ég að gera af mér eftir hádegi?

 Já sunnudagaskólinn er svo sannarlega búinn.  Mín farin að blóta  Cool

 


Snjór, snjór, snjór

Ég er ekki að grínast, það er bálviðri í Vestmannaeyjum. Snjórinn nær hálfa leið upp með veggjum hússins okkar og við erum bókstaflega fennt inni. Og það geisar hríð úti. Ég fæ alveg flassbakk til barnæskunnar þegar skaflarnir náðu upp á þak og við lékum okkur að því að renna okkur af fjárhúsþakinu alla leið niður eða hoppa af hlöðuþakinu í næsta skafl. Bjuggum til snjóhallir og rangala. Kannski maður fari bara í snjógallann í dag og fari í byggingarframkvæmdir.  Ef þessi hríð hættir einhvern tímann.

 

Sko ég er ekki að tala um Siglufjörð eða Dalvík. Ég á heima í Vestmannaeyjum. Þar sem festir aldrei snjó.  Hvað er að ske?


Ég er að verða celebrity :)

Sigrún mágkona "hörbó" náði mér aldeilis í síðustu færslu. Blush  Hún er alltaf að reyna að frelsa mig. Kannski maður slái til og reyni enn einu sinni að þræla í sig svo sem einum dunki af tei (síðasti rann út yfir síðasta söludag) Whistling

Annars er ég bara hress(ari) núna. Við húsbandið erum að fara að hitta skemmtilegasta fólk í heimi í kvöld - sunnudagaskólagengið (án gríns, já það er skemmtilegasta fólk í heimi). Borða góðan mat og hlusta á uppáhalds vínilplöturnar okkar. Eini gallinn er að það er svona þema. Maður á að vera einhver frægur. Ofboðslega frægur.  Ég er búin að svitna yfir þessu alla vikuna og argast út í Guðrúnu Helgu skipuleggjara, eins og maður eigi einhverja celebrities búninga á lager? 

 

En ákvörðun var tekin í skyndi í dag, ég ætla að brjóta gegn mínu innsta eðli og vera einhver sem er mjög ólík mér.

Ekki segja neinum. ....

En ég ætla að vera ....

nei, ekki Britney Spears........

 

Ég ætla að setja á mig svuntu og vera Betty Crocker W00t


Ég er pirruð

Ég er pirruð þessa dagana. Já gott ef ekki vikurnar.

Það helsta sem pirrar mig:

Það pirrar mig hvað ég er löt.  Ég finn engan drifkraft, öll verkefni framundan kalla á stórt Oh! í huganum.

Það pirrar mig að ég skuli ekki geta haldið áætlun með líkamsrækt 4-5 sinnum í viku. Ef það eru ekki fundir sem dragast von úr viti, þá er það ófærð (já ég veit að strangt til tekið telst það líkamsrækt að eyða hádeginu í að reyna að moka sig út af bílastæðinu), eða yfirgengileg þreyta svo það er ekki vitundarvon að vakna kl. hálf sex og drífa sig út.  Afsakanir afsakanir. Og allur þessi rútínuskortur hefur sömu áhrif á einhverfugenin mín og naglaískur á skólatöflu. Já einhverfugenin mín - þessi sem dorma alltaf í öllum mínum gerðum og líðan (einhver erfði gorminn minn af þessu og ég á væntanlega helmings sök þar á).

Í framhaldi af því þá pirrar það mig hvað ég er ógeðslega feit. Já, það er ekkert orð sem lýsir líkamsástandi mínu betur.  Ég er ekki ánægð með mig.

Ég er pirruð á flensuskít sem stingur sér niður þegar síst skyldi, þegar ég á að vera á áhugaverðri ráðstefnu á fastalandinu.

Ég er pirruð á overloadi af verkefnum sem sér engan enda á.

Ég er pirruð á draslinu og skítnum í húsinu mínu.  Mér leiðast heimilisverk, nei það er ekki satt. Ég hata þau. Hvernig get ég ætlast til að börnin mín vinni þau með bros á vör þegar ég er alltaf eins og þrumuský þegar ég þarf að snerta tusku eða kúst?

Síðast en ekki síst, ég er pirruð á þessum snjó.  Ef ég hefði viljað búa í snjóbæ hefði ég ekki flutt til Vestmannaeyja.  Það hefur verið svindlað á mér

Ég held að þetta síðastnefnda sé grunnurinn að öllum hinum pirringnum. Ég læt veðrið hafa of mikil áhrif á mig.

 

 


Misheppnuð tilraun til fjarlægingar á líffærum

Ef það er eitthvað tvennt sem kemur taugakerfi mínu og andlegu jafnvægi í bakkelsi þá er það:

Að keyra bíl við erfiðar aðstæður (t.d. eftir hálum Suðurlandsvegi og eftir vegakerfi höfuðborgarinnar)

Að fara með börnin mín til læknis vitandi að þau eiga eftir að ganga í gegnum sársauka og óþægindi. 

Síðan í júní sl. hef ég verið að sannfæra sjálfa mig um að ég verði að vera sterk og koma barninu mínu í gegnum hálskirtlatöku, þann hryllilega fjanda sem ég sjálf þurfti að ganga í gegnum snemma á síðasta ári.

Síðan í desember hef ég þurft að undirbúa drenginn minn fyrir þessi ósköp. Ganga í gegnum röksemdafærsluna, af hverju - af því það þarf, já þú missir úr skólanum, þú mátt ekkert borða og drekka fyrr en eftir aðgerð, já mamma er vond, já það verður sárt í smá tíma en svo verður það betra. Búa til og lesa félagshæfnisögu.  Jánka því að mamma sé vond og eigi ekki skilið að fá afmælisgjöf. Vinna hann smám saman á mitt band.

Martröðin mín átti að raungerast í dag og á morgun. Keyrandi eftir snjóföllnum Þrengslaveginum, takandi fram úr hæggengri vörubifreið á sama tíma og ég rökræði við drenginn minn um nauðsyn hálskirtlaaðgerðar og að hann sé ekki að fara að deyja. Akandi í gegnum borg óttans sem ég get með engu móti lært að rata um. Ég er að tala um þvílíkan sveitalubba sem ég er, ég fer fyrst inn í Hafnarfjörð áður en ég fer í Fossvoginn - af því að ég rata bara þá leið.

Farandi á spítalann, bíðandi eftir hjúkrunarfræðingi, bíðandi eftir svæfingarlækni.  Sitjandi ofan á ofvirku og einhverfu barninu (ekki ýta á þessa takka, ekki fikta í áhöldunum hjá lækninum, ekki slökkva ljósið þarna)  Láta móttökuritara hálfskamma mann, hálfvegis hæða mann fyrir að kunna ekki prótókolin ("þú áttir að gefa þig fram hjá mér" í tóninum *fíflið þitt*)

Hittandi að lokum deildarlækni sem skoðaði drenginn og kvað upp dóm. "Þessir hálskirtlar þurfa ekki að fjarlægjast".

Ég hváði, missti kjálka, missti slag úr hjarta, feginleikinn steig upp, efasemdirnar létu á sér kræla. Fékk það í gegn að hann talaði a.m.k. við sérfræðinginn sem fyrir hálfu ári síðan hafði líklegast aldrei séð jafn aðgerðareftirsóknarverða hálskirtla og í drengnum mínum. Alveg sjálfsagt mál og hann sló á þráðinn eftir drykklanga stund, við kúrandi okkur í Hafnarfirðinum.  Niðurstaðan staðreynd. Engin aðgerð.

Nú er bara eftir næstu dagana að rökræða þetta fram og til baka við drenginn - af hverju þarf ég ekki í aðgerð?  Það ætti að takast einhvern tímann fyrir mánaðamót.

 Í staðinn fyrir ömurlegan sjúkrahúsdag græðum við "skemmtidag" í höfuðborginni á morgun. Best að ná í götukortið og fara að glöggva sig á leiðinni upp í Smáralind.

Niðurstaða:  Ef maður bíður nógu lengi, þá leysast vandamálin af sjálfu sér. 


Manndómsvígsla barnanna

Árlega fer fram í Vestmannaeyjum manndómsvígsla barnanna, þau eru hert þar ár frá ári uns þau verða ónæm fyrir hræðilegum tröllum og púkum. Fyrstu árin dugar að láta þau taka í höndina á tröllunum og jafnvel spjalla við jólasveinana. Upp úr 6-7 ára er málið að reyna að standa það af sér þegar ófreskjurnar koma argandi og gargandi og að reyna að halda aftur af tárunum þegar Grýla og Leppalúði taka í mann og þykjast ætla að stinga manni í pokann. Álengdar standa foreldrar og eldri systkini og hlæja sig máttlaus, ja nema þau foreldri sem reyna að halda aftur af refsigleði forynjanna úr fjöllunum. Allt upp í unglinga er þeim oft ekki um sel þegar ófreskjurnar öskra í áttina að þeim eða elta þau uppi og hrifsa þau til sín.

Í kvöld var þrettándagleði, líklega sú veðurbesta sem ég man eftir, í fyrsta skipti sem tærnar voru ekki við það að brotna af eins og af sjóræningjanum í Pirates of the Carribean og ekki var maður heldur veðurlaminn og rennblautur í framan af rigningu. Yndislegt veður.  Mannfjöldinn ótrúlegur enda ákveðið að hafa gleðina túristavæna í ár og halda hana degi á undan áætlun. Sýningin, bæði flugeldar og forynjur stóðu sig með prýði og Grýla hafði ekki óverdósað á kakóinu í ár.

Og sonur minn stóð sig eins og hetja.  jólogþrettándi0708 049Fyrir tveimur árum og þremur árum strækuðum við á 13.anum því það hefði verið honum tilfinningaleg ofraun. En nývöknuð ástríða fyrir jólasveinum og uppfinning eins og heyrnarhlífar urðu til þess að við getum upplifað þessa eina stærstu hátíð Eyjanna aftur. Í kvöld féll ekki svo mikið sem tár.

Manndómsvígslan var samt ótrúlega mikil.  Fyrst má nefna þessa herramenn sem ruddust yfir bandið sem girðir af hátíðarsvæðið og hnepptu barn og móður í gíslingu. jólogþrettándi0708 052

 

Ótrúlegur fjöldi viðurstyggilegra kvikinda sem margar hverjar virtu ekki einu sinni hið háheilaga band heldur eltu krakkagreyin út um allt.

jólogþrettándi0708 055

Flugeldasýning í hæsta gæðaflokki og þar með talinn hávaði.  Og rúsínan í pylsuendanum, óþokkahjónin foreldrar jólasveinanna.

Leppalúði greip í drenginn og innti hann að nafni. Sá var frosinn og svaraði ekki fyrr en í þriðju atrennu lúðans sem orgaði "HVAÐ HEITIRÐU?!?!"  Þá kom loks svarið "Daníel" í svona málrómi *eins og þú vitir það ekki?* "Já, já, þú ert svo góður" kom hjá Leppalúða og svo var honum sleppt.

jólogþrettándi0708 067

Þá kom heiðurskellan sjálf sem vildi vita hvort hann væri ekki góður. Sem hann gat svarað játandi með tandurhreina samvisku.  Grýla klappaði mömmu á kollinn - sú fékk ekki falleinkunn fyrir ormagorminn. Þar með var stríðið unnið og minn stóð uppi sem sigurvegari.

jólogþrettándi0708 070 

Nú er verið að leika hér á fullu Grýlu, Leppalúða og alla jólasveinana.  Þetta á eftir að endast út þorrann.

 Mamma situr hins vegar og sötrar kakó - nei forláta berjavín frá góðum nágranna Joyful


Kristall plús

Mamma ég ætla að segja svoldið fyndið. Kristall plús er lifandi Grin.

Sko, maður ýtir svo mikið á plús að það stækkar og stækkar og stækkar og verður svo lifandi LoL

 

Ótrúlega djúp pæling. Spurning hvort maður eigi að selja framleiðandanum hugmynd að auglýsingu?


Gleðilegt nýár allir og allar og öll

Ástandslýsing: 

Kalkúnninn (hálf)étinn, börnin að tryllast yfir kínverjunum, legið á meltunni, beðið eftir Geir Harða.

Framtíðarvon:

Sofa út á morgun, lagast af kvefinu, eiga gleðilegt nýár, tapa nokkrum aukakílóum.

 


Ert' ekki að djóka í mér?....

Er nýjasti frasinn hjá litla gormi. Hann notar þetta samt ekkert í óhófi heldur bara á skemmtilega viðeigandi hátt ef hægt er að tala um viðeigandi hjá litlum 6 ára strák.

Í gær sagði ég honum að við værum að fara til Kanarí um páskana. Það var eins og ég hefði kveikt á gleðitilfinningasprengju, andlitið hans bókstaflega lýstist upp og svo kom þetta: "Ert' ekki að djóka í mér?" Ég svaraði; "nei, nei, þetta er alveg satt".  Sá stutti varð alvarlegur í bragði og leit á mig og sagði: "Mamma, maður segir bara svona".

Hann á eftir að spjara sig þessi strákur.

 

Smá um flugelda. 

Í fyrra var þetta skelfilegur tími, hann var alltaf svo hræddur við flugelda, og það við öll tækifæri. Áramót voru skelfileg, þrettándinn vonlaus, Þjóðhátíðin stórskemmd og meira að segja ekki hægt að fara á setningu Shellmótsins. Alls staðar þessi vondu flugeldar.  Við römbuðum loks á það um síðustu þjóðhátíð að kaupa almennilegar heyrnarhlífar og það var allt annað líf.  Núna er hann með heyrnarhlífarnar tilbúnar en finnst þetta annars bara spennandi. Í fyrra reyndi hann að loka sig frá hávaðanum úti (hér er sprengt eiginlega non-stop frá hádegi 28. des. þegar byrjað er að selja og fram á þrettándann) með því að grúfa sig ofan í leik. Núna hleypur hann út í glugga að fylgjast með.

Það á eftir að verða í góðu lagi með þennan stúf.


Barnaland.is

Þetta spjallsvæði, sem heitir reyndar núna Er.is - þ.e. þær umræður sem ekki snúast beint um börn og brjóstagjöf - hefur afskaplega illt orð á sér og er umdeilt með eindæmum. Mætti jafnvel flokka það með feministum, Vestmannaeyingum, Framsóknarflokknum og fleiri utangarðsbörnum í íslenskri þjóðfélagsumræðu.

En Barnaland (eða Er-is) er í rauninni heillandi smáheimur. Ef maður bara gætir þess að nota sömu lögmál og í alvöru heiminum, þ.e. að taka öllu hæfilega alvarlega, stíga varlega til jarðar og hafa húmorinn í fyrirrúmi. Það er samt aldrei nærri því eins gaman að lesa bara eins og að taka þátt.  Ótrúlega létt að detta inn í bullið þarna. 

Hér kemur umræða frá því í kvöld sem er svo einstaklega mikið Barnaland í hnotskurn. Alger snilld.

 

http://er.is/messageboard/messageboard.aspx?advid=8326656&advtype=52&page=1

 

P.s. hver kann að kenna mér að endurskíra svona tilvitnaða hlekki?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband