Færsluflokkur: Bloggar

Já, á ég að blogga hér?

Það verður að segjast eins og er að feisbókin hefur verulega seðjað tjáningargleði mína að undanförnu en kannski er kominn tími á smá færslu hér.

Mér líður allvel.  Kannski vegna þess að ég hef það sem af er árs haldið mig alfarið á eyjunni góðu. Ég er enn furðu lostin á öllum þessum Íslendingum sem hingað til hafa tekið hverju sem er sem að þeim er rétt en eru nú að sýna hegðun sem maður hefur hingað til aðeins séð á Reuters fréttamyndum.

Ekki meir um það. Þetta hlýtur allt að lagast. Og koma í ljós. Og reddast.

Orsök vellíðan minnar er örugglega nýtilkomið jóga.  Ég var svo dugleg að mæta í Body Balance hjá henni Hafdísi fyrir áramót að hún gaf mér eitt stk. jóganámskeið. Þetta er algerlega málið.  Ég elska þetta.

Mæli með þessu fyrir alla.

Nameste!

 


Jólablogg

Sofa. Borða góðan mat. Slappa af. Afstressa sig með tilheyrandi hruni ónæmiskerfisins og heiftarlegu kvefi.  Fá gjafir og hafa fallega hluti og kertaljós í kringum sig.  Ánetjast kæruleysi í hæfilegu magni.  Sofa aðeins meira. Kíkja aðeins í Hressó í hjólatíma og vinna sér inn fyrir einum til tveimur konfektmolum til viðbótar.  Lesa bókina hennar Erlu Bolla.  Geta ekki ákveðið sig hvað á að gera í skólamálunum.  Borða bara aðeins meira, jafnvel fá sér eitt rauðvínsglas.  Og fara svo að sofa.

 


Hér sé stuð. Sigrún stuð.

Ég ætla rétt að "vona" að allir séu búnir að skoða umtöluðustu bloggsíðu vefheima í Eyjum þessa dagana og snilldarfærslu hennar um Herjólf og hvali:

 http://sigrunstud.blog.is/blog/sigrunstud/

 Ég leyfi mér að endurtaka það sem ég sagði á fésbókinni;

Sigrún þessi er líklega velheppnaðasta internettröllið í sögu veraldarvefsins. Hún er álíka stereótýpa 101 liðsins og Magnús bóndi í meðförum Ladda var/er fyrir afdankaða afdalabændur. Ég neita sem sagt að trúa því að þessi manneskja sé til í raun og veru. En ef hún er til, endilega á þing með hana! Upp á borðið með þetta allt saman :).

 

Annars vorum við hjónakornin að koma úr fimmtugsafmæli sr. Kristjáns, yndisleg stund með skemmtilegu fólki.  Takk fyrir okkur kæru hjón. Og krakkarnir þeirra auðvitað líka, takk takk :)

Í morgun fór ég í Landakirkju og kvaddi Jónu Ólafs, yndislega konu og samstarfsfélaga. Það var erfitt. 

Man.Utd. hafði þetta á lokamínútunni gegn liðinu mínu.  Húsbandinu og Daníel til mikillar ánægju og ég verð að segja að mér létti talsvert, heimilisfriðnum borgið.  En okkar tími mun koma Sunderland :)

 


Tónleikar, nunnur og smiður

Ég var að skutla unglingnum aftur í partý niðri í Skvísusundi.  Þar er heljarinnar grímuball í gangi sem er uppskeruhátíð Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Hann var rekinn öfugur heim, grímubúningslaus eins og hann var, svo hann klæddi sig upp sem afi sinn - Gústi Hregg eldri, í vinnugalla og skóm með stáltá og vinnuhanska.  Í anddyri Pipphússins var sægur af nunnum og svo mátti sjá þar líka fjallmyndarlegan hippa.

Unglingarnir fá að vera með fram að miðnætti, auðvitað verða þau að fá að fagna líka.

Styrktarfélagatónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja voru sem sagt í dag og gæsahúðin aðeins að hjaðna hjá mér.  Hvað eftir annað risu hárin á handleggjunum og tárin spruttu fram í augun.  Tónlistin var mögnuð, 40 frábærir tónlistarmenn undir stjórn Jarls Sigurgeirssonar.  Svo verður auðvitað að viðurkennast að ég var að rifna úr stolti yfir unglingnum en hann og 9 jafnaldrar hans eru nýju vaxtarbroddarnir í sveitinni, brumin sem þarf að hlú að og halda í.  Jarl stendur sig frábærlega í því. Það er ekkert auðvelt að vera unglingur og vera í "nörda"áhugamáli eins og lúðrasveit. Enda er minn ekkert að auglýsa það.  Þið segið engum frá.

Annars er nokkuð til í því sem sagt hefur verið, við Eyjamenn erum nördar.  Hvar annars staðar er vinsælasta íþróttin skák og flottasta hljómsveitin Lúðrasveitin W00t


Bara eitt orð....

.....Einhugur.

 

Sjá http://einhugur.blog.is/blog/einhugur/

 

 


Meðan smælkið fór í bíó með frændfólkinu

Var góð hugmynd að verja 40 mínútum í smá göngutúr.

Að ganga með kulið í fangið á fallegum en köldum haustdegi, arka niður í Herjólfsdal og svo aðeins meðfram Ofanleitishamrinum

Fékk mig til að stilla mig af og safna orku helgarinnar saman á einn stað

Að horfa á brjálaðan sjóinn lemja klettana, segjandi, ef þú ert ekki að abbast upp á mig læt ég þig í friði

Engir fuglar á ferð en fullt af kolsvörtum krækiberjum sem sögðu við mig, þú misstir af okkur í haust en við komum aftur að ári

Vinaleg andlit fólksins - bæjarbúa, misjafnlega kunnuglegra - sem óku fram hjá í sunnudagsbíltúrnum sögðu mér að við værum í þessu öll saman

Blásturinn í andlitið fékk mig til að fókusa inn á við, finna punktinn innra með mér og allt í einu skipti allt og ekkert  máli

Og ég fann allt í einu

að ég er falleg

að ég er góð

að ég er öflug

 

Þessi náttúra er mögnuð.


Sálnaveiðar

Hjá mér bönkuðu í dag tveir myndarlegir karlmenn, töluðu bjagaða íslensku og báðust velvirðingar á því.  Sögðust vera aðeins um skamma stund hér á eyjunni. Báðir voru með svartar velktar bækur í hendi, mikið lesnar biblíur.  Báðu mig um örfáar mínútur til að segja mér frá spádómunum sem væru einmitt að rætast um þessar mundir eins og allir mega sjá og heyra.

Ég hummaði fram af mér, sagðist vera frekar bissí. Vottarnir (þeir kynntu sig ekki sem votta Jehóva en báru það með sér) duttu ekki af baki heldur buðust til að sýna mér ritningarstaði í biblíunni svo ég gæti nú lesið sjálf.  Eins konar heimalærdómur fyrir bissí húsmóður í vesturbænum. Ég hummaði það fram af mér líka, meðvituð um þá lífsreynslu mína að litlifingur í átt að Votta þýðir allur handleggurinn næstu vikurnar.  Hálfvegis skellti hurðinni á myndarlegar ásjónur þeirra.

Armageddon er greinilega hafið og verið að safna saman síðustu villuráfandi iðrandi sálunum.

 


Don't go wasting your emotions....

...Daníel horfði spenntastur allra heimilismanna á leikinn á móti Hollandi.  Eftir fyrsta markið var hann farinn að tauta í barm sér "Áfram Holland".  Í lokin var hann búinn að ganga í gegnum allt sorgarferlið og orðinn sáttur við niðurstöðuna.

Held að margir Íslendingar tauti í barm sér um þessar mundir "Áfram-eitthvað-bévítans-land-annað-en-þetta-guðsvolaða-skammarlega-sker".

Ég hins vegar hef ekki glatað neinu af minni ættjarðarást.  Ég get ekki séð að Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson, Dettifoss og Geysir hafi neitt með hrun fjármálamarkaðarins að gera. Ég neita ennfremur að taka þessa ábyrgð á mig eins og mér sýnist margir landsmenn gera.  Það er talað um að "við" höfum tapað áreiðanleika og mannorði, að "við" verðum að axla ábyrgðina.

Ég ætla ekki að axla neina andskotans ábyrgð á þessu. Þetta er hvorki í mínum verkahring né á minni ábyrgð.  Ég var ekki í neinni fjandans útrás, ég hef aldrei verslað með hlutabréf, ekki er ég í pólitík og ég er ekki einu sinni með bílalán, hvað þá myntkörfulán. 

Ég hef nóg af verkefnum sem ég ber ábyrgð á. Um þetta gildir æðruleysisbænin.

 

... Í dag fór ég að "gráta í rangri jarðarför" eins og Thelma vinkona mín og samstarfskona orðaði það og var reyndar búin að spá fyrir. Þetta er andstyggilegt starf stundum.  Að auki verð ég að fara  að stokka upp í forgangsröðinni hjá mér. Það dugar ekki að varpa ábyrgðinni úr starfinu á börnin mín, ekki frekar en fjármálagúrúarnir mega varpa ábyrgðinni á fjármálakreppunni á mig.

...Svo ég tók ábendingum vina minna og horfði á Mamma mia.  Og fór allmörg ár aftur í tímann og sá mig og Siggu Gróu vinkonu fyrir mér með handþeytara mæðra okkar, dansandi og skoppandi, hún var Agnetha og ég var Anni-Frid.  Það er staðreynd, þessi mynd er á við 4 gleðipillur og 5 grátköst.

...Held ég sé hætt í skólanum í bili, orðin sem sagt temporary graduate drop-out.

...Og á mánudaginn förum við "einhverfubarnaforeldrarnir" í Eyjum í blaðaviðtal í Fréttum. Erum að fara að stofna formlegt félag.  Miklu meir um það síðar.

... lay all your love on me.


Það sem upp á vantar...

Ég held að með Olweusar áætlunum sé farið að vinna ágætlega úr eineltismálum í grunnskólum landsins - þegar þau komast upp.  Kannanir sýna (a.m.k. hér) að dregið hefur úr einelti síðan farið var að vinna með Olweus.

Það sem upp á vantar og hefur gleymst... er að það þarf að hjálpa þeim sem lenda í einelti til að vinna úr þeirri reynslu. Það er ekki nóg að stöðva eineltið og svo eiga allir bara að vera vinir þar eftir.

Þeir sem verða fyrir einelti stríða við afleiðingar löngu eftir að því lýkur. Ef ekki er unnið úr því á réttan máta getur það haft mjög alvarlega hluti í för með sér.

Ég er hrædd um að þennan pakka vanti í áætlunina og hef verulegar áhyggjur af því.


mbl.is Ætlaði að pynta þau og drepa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það sem ekki má...

Það er margt sem mann langar að blogga um.  Af augljósum ástæðum gerir maður það ekki.

Ég reyni að stilla frásögnum af heimilisfólki í hóf. Vissulega hef ég sagt frá einhverfu stúfsins míns en reyni að gera það á hófstilltan hátt. Hann veit sjálfur að hann er einhverfur og við ræðum það oft að sumir þættir hegðunar hans og liðanar eigi rót sína í einhverfunni.

Mig myndi langa að segja sögu af slæmu einelti í grunnskóli en af tillitsemi við viðkomandi þolanda sem er mér vægast sagt mjög tengdur geri ég það ekki. En ég er á leiðinni að senda söguna til Ingu Baldurs.  Allir að styðja landssamtökin hennar http://ingabaldurs.blog.is/

Mig langar að svara fólki á blogginu sem fullyrðir að allir félagsráðgjafar og starfsmenn barnaverndarnefnda séu með hafragraut í heilastað. En ég er ekki í vinnunni núna svo ég geri það ekki.

Og af augljósum ástæðum tala ég ekki um vinnuna mína nema á mjög almennan máta.

Held að það sé ágætis vinnuregla að skrifa um það sem ég myndi án hiks tala um við kvöldverðarborðið en e.t.v. jafnvel pússa það dálítið til. Maður lætur kannski eitthvað flakka í þröngum hópi sem ekki á erindi á veraldarvefinn.

Vona að ég hafi ekki brotið þá reglu hingað til.

 Gústi minn er í Þorlákshöfn um helgina, á Landsmóti Lúðrasveita. Sakna hans, eins og alltaf þegar hann er í burtu. Ég vil hafa unglinginn minn heima um helgar. Eigingjarna mamma.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband