Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

31. ágúst 2003....

.... 10 árum eftir andlát mömmu fæddist lítill drengur í Reykjavík.

Hann fékk nafnið Lárus Breki og er Bjarnason. 

 

Til hamingju með afmælið Lárus frændi, og þið auðvitað líka, Bjarni og Hafdís, til hamingju með stráksa litla (stóra) Heart

 

Þið fáið eitt gamalt og gott með Fredda og félögum

http://www.youtube.com/watch?v=58CJih1iYC0&feature=related


31. ágúst 1993....

.... er ástæðan fyrir hinum ljúfsáru minningum (þ.e. sára hlutanum) sem ég skrifaði um í gær.


Fyrir 15 árum síðan kom Jóhanna systir til mín upp á spítala rétt um hádegisbil. Tilefnið var ekki eingöngu að kíkja á litla nýfædda strákinn minn heldur hafði hún fengið það hlutskipti að segja litlu systur sinni að mamma okkar hefði dáið þá fyrr um morguninn.

Mamma var með heilaæxli, líklega afleiðing heilablóðfalls 1976 því hún varð flogaveik í kjölfarið en það uppgötvaðist ekki fyrr en 1990.  Svo á sextugsafmælisdaginn sinn, daginn eftir að hafa eignast sitt 10. barnabarn kvaddi hún þennan heim. Þó ekki fyrr en Ásta systir hafði sagt henni að það væri kominn lítill drengur í Vestmannaeyjum.

Enginn veit hvort hún var að bíða eftir afmælisdeginum sínum til að kveðja eða barnabarninu. Eða hvort þetta var allt saman tóm tilviljun.

Nokkrum dögum síðar sat ég ein heima, var að reyna að strauja barnaföt en aðallega sat ég og hágrét.  Það var verið að jarða mömmu mína norður í Hrútafirði en ég treysti mér ekki svona nýborin og með lítinn angalanga, aðallega treysti ég mér ekki tilfinningalega. Svo ég sat bara ein heima og grét. Og hlustaði á þetta lag:

http://www.youtube.com/watch?v=Ikc29LdXAFY&feature=related

 

Villi var í miklu uppáhaldi hjá mömmu og þá ekki síst þetta lag.

Mamma fær sem sagt netknús dagsins í dag Kissing

 

P.s. lagið er til að hlusta á, þetta vídeóbrot er ekki eftir mig og tengist ekki mér eða minni fjölskyldu á nokkurn hátt.


30. ágúst 1993....

... fyrir 15 árum síðan var ég uppi á fæðingarstofu á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, búin að vera með hríðar frá því á miðnætti og það bólaði ekkert á frumburðinum. 

Við vorum orðin talsverð leið og ekki síst á panflautu músík ljósmæðranna svo kveikt var á útvarpinu.

 Í útvarpinu hljómaði þetta lag

http://www.youtube.com/watch?v=chysEoANK7c

Sem var ákaflega vinsælt á þessum tíma. Við höfðum verið að rúnta á bíl tengdaforeldra minna (áttum ekki bíl þá) kvöld eftir kvöld í lundapysjuleit og tilraun til að koma barninu af stað sem var komið 10 daga fram yfir þegar hér er komið sögu. Og í útvarpinu var þetta lag ALLTAF í gangi. 

Yndislegt lag sem í dag vekur með mér mjög ljúfsárar tilfinningar. Segi nánar frá því á morgun hvers vegna það eru svona blendnar tilfinningar sem vakna.

 Kl. 13.00 þennan sama dag skaust lítill þreyttur angi í heiminn.  Hann er 15 ára í dag, miklu stærri og sterkari en mamma sinn og fallegasti og flottasti drengurinn í alheiminum, (mögulega að bróður sínum meðtöldum).

 Í afmælisveislu vill hann fá nautasteik og bragðaref í eftirrétt. Og honum mun verða að ósk sinni.


Snökt

Crying  Gamli vinnustaðurinn minn.

Ekki að ég hafi unnið þar mjög lengi, var þar í nokkrar vikur, sumarið '86 að mig minnir.

Ágætis vinnustaður og margar skemmtilegar minningar.

 

Kom hins vegar ekkert oft sem kúnni þangað, þá fór maður oftar í Staðarskála. Sem brátt heyrir líka sögunni til. Stutt er síðan ég kom síðast í Staðarskála en líklega nokkur ár ef ekki áratugur síðan ég átti leið í Brúarskála.  

 

Það verður gaman að koma í nýjan veitingaskála en undarlegt að keyra aðra leið inn í Hrútafjörðinn.


mbl.is Brúarskáli í Hrútafirði rifinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarorlofsdútl

Ég ætti svo sannarlega að vera að nota tímann í eitthvað nytsamlegt núna. Ef ekki skúra eldhúsgólfið þá a.m.k. að fara í heimildaleit fyrir námið mitt.

En ég er bara í dútli og dúlleríi.

Þegar ég var unglingur (fyrir örfáum árum síðan) skrifaði ég oft niður lagatexta og reyndi jafnvel að snúa þeim á ástkæra ylhýra.  Ég tók smá syrpu í þessu áðan (hlýtur að vera nostalgían alræmda að verki). Var nefnilega að hlusta á þetta lag ásamt öðrum í Ipodinum á sunnudagsgöngutúrnum mínum. 

Sá sem "fattar upp á" úr hvaða lagi þetta er fær verðlaun.

Og ef ég sneri að þér skugganum?

Myndirðu samt faðma mig?

Í nótt?

Og ef ég hellti úr hjartanu

Sýndi þér veikleika mína

Hvað gerðir þú? 

Færir þú með fréttina í Séð og heyrt?

Tækirðu kannski krakkana og hyrfir greitt?

Brosandi með hluttekningu

hvíslandi á við 112?

Rækir þú mig í burtu?

Eða yrðum við áfram eitt?

Ég hélt ég ætti að segja hvað mér fyndist

Hélt ég ætti að rífa upp þessa hurð

Ég hélt á hnífnum, nötrandi

Var tilbúinn til þess ...en......

þá hringdi einmitt síminn

Ég lagði aldrei í þann lokaskurð

Koma svo, þið eigið að fatta þetta eins og skot!


Nei það er ekki í lagi.

Ég efast ekkert um að það hafi tíðkast hér á öldum og árum áður að flengja börn. Og að mörg þeirra barna hafi orðið að góðu fólki.  En það var margt sem tíðkaðist hér áður fyrr. T.d. að pína "mat" eins og súran hræring og selkjöt ofan í börn eða svelta þau ella. 

Það var nokkuð viðtekin skoðun áður fyrr að það væri lítið tiltökumál að gefa frá sér börn.  Ef einhver í stórfjölskyldunni átti ekki barnaláni að fagna var gjarnan þrýstingur á barnmarga aðila innan fjölskyldunnar að gefa frá sér eitt af sínum börnum. Og það þótti hvorki nauðsynlegt né æskilegt að upplýsa viðkomandi barn fyrr en í fyrsta lagi á kynþroskaárunum - svona til að koma í veg fyrir "blóðskömm". 

Sorg barna var ekki viðurkennd. Það eru til margar sorglegar sögur um viðbrögð sem börn upplifðu frá umhverfinu þegar þau misstu foreldra eða systkini.  Þeim var sagt að hætta að væla og fara að leika sér. 

Í dag er 2008. Í dag vitum við betur. Og að blanda aga eða agaleysi og öðrum uppeldisaðferðum (eða skorti á þeim) inn í umræðuna er í besta falli villandi. Við eigum öll að þekkja heppilegri, betri og árangursríkari uppeldisaðferðir en flengingar.

Horfið aðeins á athöfnina flengingu. Ef meiningin er að refsa, hví endilega að meiða? Og ef á að meiða, því lemja á rassinn?  Og ef endilega á rassinn, hvers vegna á beran rassinn?  Reyniði að segja sjálfum ykkur að þetta sé ekki fyrst og fremst leið til niðurlægingar með kynferðislegum undirtóni (misnotkunar - þar sem börn eiga í hlut).

Ég trúi því vel að fullt af fólki hafi lifað af rassskellingar og sé hið besta fólk. En ég vil halda því fram að það hafi gerst þrátt fyrir flengingarnar, ekki vegna þeirra.


mbl.is Er í lagi að refsa börnum líkamlega?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fortíðarþrá og google

Ég verð að játa það að ég er enn illa haldin af fortíðarþrá (nostalgíu) eftir RSK mótið.  Ég verð líka að játa þá synd að ég hef verið að njósna um ýmis skólasystkini mín með öflugri hjálp google.is. Ég á svolítið bágt en þetta hlýtur að fara að renna af mér.

Fólk skilur eftir sig mjög misjafnlega greinileg spor á veraldarvefnum, sumir eru ófinnanlegir og hafa greinilega ekki verið neitt voðalega opinberir, aðrir poppa upp við fyrsta gúggl. Með öflugri samtvinnun google og þeirra upplýsinga sem mér áskotnuðust á mótinu og eftir mótið hef ég uppgötvað m.a. eftirfarandi staðreyndir:

 

Jón Jónsson vinur minn (sérstaklega góður vinur minn frá 82-83 og öll árin okkar á Króknum) rekur gistihús á Kirkjubóli og man sama og ekkert frá árinu 81-82. Þegar hann var pínulítill.  Hann er samt enn skemmtilegur húmoristi. Strandaferð er ofarlega á "to-do" listanum núna.

Sallý á tengdason frá Eyjum sem stundar nú nám í Bifröst og það vill svo skemmtilega til að ég þekki hann allvel, hann spilaði fótbolta með húsbandinu mínu fyrir ekki svo mörgum árum. Og dóttir þeirra Didda og Aldísar, Ragnheiður var á leikskóladeild með syni mínum.

Góðvinur minn Bergþór og bekkjarsystir mín frá 82-83 hún Anna Linda, hafa hvort um sig glímt við afar ólík en alvarleg veikindi. Ég vildi að ég hefði getað knúsað þau fyrr.

Geir töffari Karlsson er heimilislæknir á Hvammstanga og bara það eitt gerir það eftirsóknarvert að flytja þangað.  Að maður tali nú ekki um þá staðreynd að Imba er stuðningsfulltrúi/skólaliði og væntanlegur textilmenntakennari á sama stað.

Síðast en ekki síst;

fyrsti kærastinn minn, þáverandi ástin í lífi mínu, maðurinn sem ég hélt að ég myndi elska til æviloka.......

 

.... kom ekki á RSK mótið vegna þess að hann var upptekinn við að....

 

.... aka bleikum vörubíl niður Laugaveginn í tilefni af gleðigöngu samkynhneigðra. ErrmGrin

 


Lokasprettur sumarorlofsins

Það líður að hausti og ég er bara í letikasti í sumarfríi.  Þegar börnin (þ.e. barnið, skítt með unglinginn Tounge) byrja aftur í skólanum get ég farið að mæta aftur í vinnuna. Þangað til ætla ég að leyfa mér að vera löt enda snilldar dugleg í vikunni fyrir þjóðhátíð. Þyrfti samt að klára eitthvað af því sem ég byrjaði á þá eins og að mála ruslatunnuskýlið.

Daníel hundleiðist, enda er mamma hans ekkert skemmtileg til lengdar. Unglingurinn sefur enn fram að hádegi og vakir yfir tölvuleikjum fram á nótt.  Það er ekkert uppeldi á þessu heimili.

Ég komst að því mér til skelfingar á mánudaginn að lykilorðið mitt á vinnuvefpóstinn er útrunnið og ég get ekki breytt því heiman frá mér.  Ég veit að það tístir í elsku samstarfsfólkinu mínu því þau máttu ekki setja inn færslu inn í skjalakerfið án þess að ég væri komin að kíkja. Blush  Nú neyðist ég til að vera í fríi og veit ekkert hvað er að gerast í vinnunni.

Gallinn er þó sá að ég hef of oft notað vinnupóstfangið í öðrum tilgangi. T.d. er það tengt þessari bloggsíðu.

Svo ef einhver skyldi nú hafa lagt fram ósk um að gerast bloggvinur minn, þá er skýringin á tómlætinu ekki hunsun af minni hálfu.  Ég vil örugglega vera vinur þinn InLove 


ÁFRAM RSK!!!!

Helgin var snilld og ekkert nema snilld. Á föstudagsmorgni langaði mig hreinlega ekki að leggja af stað í Herjólf og var að reyna að upphugsa afsakanir fyrir því að mæta ekki.  Hafði þó verið svo sniðug að koma í veg fyrir slík undanbrögð með því að mæla mér mót á föstudeginum við hana Anni Haugen sem ætlar vonandi að vera mastersleiðbeinandinn minn og við fundum í sameiningu frábæra hugmynd að rannsóknarverkefni.

Jæja, komin upp á land svo það var ekkert hægt að hætta við og við Adda lögðum af stað um fimmleytið svo við fengum allan mótspakkann. Ég hafði kviðið því talsvert að hitta þarna mestmegnis "aðalinn" úr skólanum, þ.e. krakkana sem voru 17-19 ára á þessum tíma meðan krakkaskítar eins og ég og Adda vorum bara rétt fermdar. Það voru óþarfa áhyggjur, við kynntumst bara öll upp á nýtt og þegar við vorum nokkurn veginn búin að bera kennsl á hvert annað var eins og við hefðum öll sömul verið saman í saumaklúbb undanfarin 28 ár.

Það er svo margt sem stendur upp úr, ratleikurinn, að væflast um gömlu húsakynnin með fiðring í maganum og í nostalgíuvímu, kvöldvakan var algerlega frábær og ég er enn að hlæja að atriðinu sem hefði átt heima í gömlu góðu Funny movie myndinni, þar sem Jón Þór brá sér í hlutverk bolta. Auðvitað saknaði maður margra, hefði til að mynda viljað hitta eitthvað af kennaraliðinu og svo voru ekki margir úr gömlu góðu "klíkunni" okkar, í raun bara við Adda og Beggó en það var sko ekki verra að hitta þau og auðvitað alla hina.

Ég er enn með ljúfsáran sting í hjartanu og sælubros á vör. Vona að leikurinn verði endurtekinn, ja alla vega innan við 30 árin að þessu sinni Whistling

Í huga mér hljómar hið gullfallega lag Hippabandsins, Geng hér um.  Textinn er hér að neðan, hann virkar kannski ekkert sem tær snilld við fyrstu sýn en lagið er gullfallegt (það er hægt að hlusta á það á Reykjaskólasíðunni sem er í bloggvinalistanum mínum). 

Tár og bros, knús og kremj til ykkar allra, ekki síður þeirra sem ekki voru en koma sko örugglega næst Cool

 

Ég geng hér um á götum bæjarins

á slitnum skóm og röfla við sjálfan mig

það er svo margt sem að hugsa ég

er ég geng hér um á götum bæjarins

Ég heyri fuglana syngja

ég heyri bjöllurnar klingja

er ég geng hér um

á götum þessa bæjar

já því að fuglarnir syngja

er ég geng hér um

einmana á götum þessa bæjar.

Ég er yfirgefinn, undirgefinn allstaðar

enginn talar við mig, lítur við mér neins staðar

því ég hef enga vinnu, slæpist bara

og geng hér um

eins og dauður hlutur í slitnum gúmmískóm

Ég heyri fuglana syngja

ég heyri bjöllurnar klingja

er ég geng hér um á götum þessa bæjar

já því að fuglarnir syngja

er ég geng hér um

einmana á götum þessa bæjar

 


Rólegheit á síðasta þjóðhátíðardegi

Rólegt yfirbragð yfir öllu og öllum.  Þoka og úði í dalnum en allir hressir.  Lambalærið komið í ofninn hér á Búhamrinum.  Daníel tilkynnti föður sínum að í kvöld fengi hann dautt lamb að borða.

Gott að vita það.

 

CIMG2200  Herjólfsdalur um hálffimmleytið í dag.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband