Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Um a) Þjóðhátíð og b) einelti

a)

Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2008 hefst á morgun. Í dag er rigning og rok en mig minnir að vont veður á fimmtudegi þýði gott veður um hátíðina. Of gott veður (eins og var í gær) á fimmtudegi þýðir brjálað veður á hátíðinni.  Er það ekki annars?

Ein af hefðum Eyjamanna er að slást um að vera fyrstir að ná sér í stæði fyrir hvítu tjöldin og tilmæli eða fyrirskipanir þjóðhátíðarnefndar um að "tjöldun sé leyfð kl. 20.00 á fimmtudegi" er ekkert nema fáránlegt grín.  Það fóru nefnilega víst "allir" í gærkvöldi og tóku frá stæði.  Nema fjölskyldan sem ég giftist inn í. Það er nefnilega ein af hefðunum þar að þeir sem ráða ferðinni neita að taka þátt í slagnum.  Það eru yfirleitt svona einn til tveir sem malda í móinn og vilja fara af stað líka en niðurstaðan er alltaf sú að við skulum bara vera síðust og vera í ystu götunni. Með endatjald. Eða bara í hliðar-bak-götu.  Eins og alltaf.  Sem er líka ágætt.  Þegar upp er staðið.  Ég ætla eins og venjulega að reyna að anda inn um nefið og sætta mig við hefðirnar.  Ef illa fer þá tjöldum við bara á golfvellinum.

 

b)

Á vefsíðunni http://eyjar.net/ er búin að vera umræða (skrif) um tiltölulega nýja bók Sigurgeirs Jónssonar um viðurnefni í Vestmannaeyjum. Sannast sagna er fólk hér í Eyjum búið að vera í sjokki undanfarnar vikur yfir þessari útgáfu á samantekt á viðurnefnum sem þykir vægast sagt á köflum meiðandi, rætin og óviðeigandi.

Ég las svargrein Sigurgeirs og fannst svör hans ekki slæm. Ég er þó ekkert viss um að sumum hlutaðeigandi þyki þau fullnægjandi, ekki frekar en fórnarlömbum eineltis þyki mikið til þess koma þegar gerandinn segir "bara djók" "O.k. sorrí, maður". Eða þegar viðhlæjendurnir segja "en ég gerði ekki neitt!"  

Hins vegar held ég að þessi bók, fyrst hún "þurfti" að koma út, sé ágætis kjaftshögg á okkur.  Auðvitað er stigsmunur á því sem þú segir yfir kaffibollanum og því sem þú setur á prent en það er þó bara stigsmunur en ekki eðlismunur. Það að leyfa slíkri rætni sem kemur fram í mörgum viðurnefnum hér að viðgangast er blettur á góðu samfélagi. 

Eins og Einar Gylfi Jónsson sálfræðingur og Eyjamaður orðaði það svo vel í grein sinni: "samfélagið í Eyjum einkennist af undarlegri blöndu af samstöðu og greiðvikni annars vegar og dómhörku og miskunnarleysi hins vegar"

Okkar allra er að minna hvert annað á að draga úr dómhörkunni og miskunnarleysinu. Það gerum við m.a. með því að hætta að vera viðhlæjendur þeirra sem sletta fram óviðeigandi athugasemdum og rætni.  Einelti er ekkert djók.


Myndir frá systkinamótinu eru komnar inn :)

Við fórum fyrir hálfum mánuði á heimaslóðir til að hittast, systkinin. Erum að reyna að koma okkur upp hittingavenju, hittast lágmark 1x, helst 2x á ári og þá a.m.k. í annað hvert skipti með börnunum.

Að þessu sinni voru Bibbi og Sigrún í Eyjanesi, ásamt bústaðsbúunum Bjarna og Hafdísi gestgjafar.  Þrátt fyrir talsverða úrkomu var ekki mikill vindur og tjöldin láku ekki neitt.  Fengum svo sól og blástur á sunnudagsmorguninn svo allt var tekið þurrt niður.

 Þetta var eins og alltaf, óviðjafnanlega gaman og ekki síst fyrir krakkana. Svo er alltaf svo heilandi að flækjast á heimaslóðir, ráfa um þúfurnar þar sem maður lék sér sem krakki, skoða gömlu traktorana og Landroverinn gamla sem var einmitt bíllinn sem ég lærði fyrst að keyra.

 Setti inn í albúmið nokkrar vel valdar myndir ef ættingjarnir skyldu slysast inn á síðuna :) 

 

(Skamm Þröstur. En þú kemur bara næst).


Var að tala við unglinginn...

... og hann var hinn rólegasti.  Ég var reyndar svo heppin að hann var nýbúinn að leggja á, (gleymdi bara að segja mömmu sinni frá þessuCool), annars hefði ég fengið hjartaáfall yfir sjónvarpsfréttunum.

 Jú jú, hann prófaði þetta tæki í fyrradag.  Það var allt í lagi með það þá sem sagt.

 

En er þetta ekki orðið full algengt með þessi tívólíslys?


mbl.is Íslendingar heilir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband