Fékk þetta í tölvupósti...

... og vakti það reyndar meiri áhuga hjá mér en venjubundnari póstsendingar um Viagra og tippastækkanir: 

 

Bacheelor, MasteerMBA, and Doctoraate diplomas available in the field of your choice that's right, you can even become a Doctor and receive all the benefits that comes with it!

Our Diplomas/Certificates are recognised in most countries    
   
No required examination, tests, classes, books, or interviews.    
     
** No one is turned down
** Confidentiality assured      
       
CALL US 24 HOURS A DAY, 7 DAYS A WEEK
     
For US: 1-718-989-5740
Outside US: +1-718-989-5740
  
"Just leave your NAME & PHONE NO. (with CountryCode)" in the voicemail    
  
our staff will get back to you in next few days     
     
     

Hvurn fjandann er maður að baksa þetta ár eftir ár að þykjast vera að mennta sig þegar maður þarf ekki einu sinni að kaupa kókópuffskassa til að fá þetta upp í hendurnar W00t


Mamma skvísa

Ég var að grafa upp gamlar myndir til að skanna inn og senda inn á Reykjaskólasíðuna (en ef það var ekki komið nógu skýrt fram þá verður Reykjaskóla-reunion í sumar fyrir þá sem voru þar 1980-1982).

Þá fann ég þessa mynd

 

Ég og Magga

 

Þetta er ég (til vinstri á myndinni í bleikum kjól) 15 ára gömul í búningaflippi heima hjá Siggu Gróu vinkonu.  Á þessum tíma var ég hryllilega meðvituð eins og 15 ára krakkar auðvitað eru, uppfull af komplexum og fannst ég vera hryllilega feit.  Þegar ég fann myndina starði ég á hana, vá, hvað ég myndi gefa fyrir að vera með þennan vöxt í dag Pouty

Ég sýndi unglingnum mínum (sem er einmitt rétt að verða 15 ára) myndina í von um upphrópanir og aðdáunarmerki. Hann horfði á myndina, síðan á mig, aftur á myndina og svo aftur á mig.  Í svip hans var hrúga af hneykslun með dash af vorkunnsemi. Svo spurði hann: Hvað vantaði í toppstykkið á þér þarna?

Kannski er mamma bara best eins og hún er. Mjúk með toppstykkið heilt.

Við hliðina á mér stendur hún Magga sem var vinkona og vinnufélagi okkar þetta sumar (1982). Hvar ert þú í dag Magga mín?


Loksins Kanarímyndir

Já, lét loksins verða af því að lesa inn nokkrar myndir úr vorfríinu okkar. Við systurnar (tvær af þremur) fórum nebblega með fjölskyldurnar á Kanarí um páskana og ekki nóg með það heldur voru þar líka seinni vikunna tveir bræður okkar  (af fjórum) með sínar (ekki svo litlu) fjölskyldur auk þess sem tengdaforeldrar mínir slógust í hópinn líka seinni vikuna.

Alveg yndislegur endir á erfiðum vetri.  Það var nokkuð snjólétt eftir heimkomuna :)

 


Reykjaskólaendurfundir í sumar

Ég man.... .... snjókast og snjóslagir.... sundlaugarpartý í blíðviðri, hlaupið yfir í matsal á sundfötunum til að fá sér að drekka og svo aftur í sund..... tússlitir settir í hár til að búa til strípur..... bíósýningar, t.d. Ormaflóðið, kokkurinn hótaði að hafa hakk og spaghettí í matinn..... tónleika Utangarðsmanna og Bubba (ég á ennþá eiginhandaráritanirnar)..... frægðarför í Laugardalshöllina þar sem við í ósamstæðum og litríkum fimleikabúningum slógum í gegn undir handleiðslu Jónínu með tónlistina úr Fame dynjandi..... helgarferðir til Reykjavíkur, Hlemmur, 1001 nótt, Vinnufatabúðin og Hallærisplanið..... ég man líka snúðana hans Lóa, bestir í heimi..... eldhúsvaktir þar sem okkur var “kennt” að vaska upp og skúra.... kornfleks og hveitibrauð í morgunmat, til hátíðabrigða á sunnudögum cheerios og jafnvel cocoa puffs, sumir lögðu það á sig að vakna í morgunmat á sunnudögum!..... svínadallurinn sem hirti matarleifarnar eftir okkur... og stöku hnífapör þvældust með..... fyrstu ástina..... fyrstu ástarsorgina..... skólakeppni milli bekkja í handbolta, innanhúsfótbolta, körfubolta og allir tóku þátt.... leiksviðið í salnum, árshátíðir og 1. des. skemmtanir.... andaglas og draugasögur.... svítuna .... jafnvel Smókinn, þó ég byrjaði ekki fyrir alvöru að reykja fyrr en eftir RSK.... lestíma og vistartíma.... klíkur og stéttaskiptingu .....En man einhver eftir mér??

Fjölskylduhelgin framundan :)

Jæja, þá er þessi laaanga (frídagalausa) vika á enda og þó. Framundan er skemmtileg helgi í Vestmannaeyjum, fullt um að vera og í mínum huga ber þar hæst fjölskylduhátíðina okkar.  Vona að veðrið verði til friðs.

Birti hérna greinina mína sem birtist á Eyjamiðlunum (í prenti og á neti) í vikunni.  Samstarfsfólk mitt talaði um að þetta væri lúmskur Bakkafjöruáróður en ég veit ekkert hvað þau eru að tala um Whistling

En gaman að því að þetta er í dag mest lesna greinin á eyjar.net.  Me smá montin Cool

Svo, á morgun mætir maður í íþróttamiðstöðina til að blása upp blöðrur Smile 

 

STÖNDUM SAMAN – FJÖLSKYLDUHELGIN UM HVÍTASUNNUNA.

Ágætu bæjarbúar!

Um næstkomandi helgi, hvítasunnuhelgina, verður Fjölskylduhelgin haldin hátíðleg í 4. skipti. Það er árleg tilhlökkun hjá starfsmönnum Fjölskyldu- og fræðslusviðs að undirbúa hátíðahöldin enda skemmtileg og öðruvísi vinna með ótal sjálfboðaliðum, stofnunum og félagasamtökum. Fjölskylduhelgin er búin að festa sig í sessi sem ómissandi árlegur viðburður í bæjarlífinu þar sem boðið er upp á ýmis konar heilbrigða, skemmtilega og gjaldfrjálsa afþreyingu og höfðað til fjölskyldunnar að koma og skemmta sér saman.  Eins og áður tengjum við Fjölskylduhelgina við listviðburðinn List án landamæra þar sem við njótum listsköpunar fatlaðra og verður sú sýning opnuð í Íþróttamiðstöðinni við setningu hátíðarinnar.

Á það skal minnt að “fjölskylda” þarf ekki bara að vera hefðbundin kjarnafjölskylda með pabba, mömmu, börnum og bíl heldur erum við að tala um hvers kyns fjölskyldugerð. Það gæti t.d. verið einhleypa frænkan sem fær jafnvel systkinabörnin sín “lánuð”, afi og amma ein sér eða með barnabörnin og hin ýmsu kærustupör af öllum stærðum og gerðum. Í stuttu máli sagt, allir bæjarbúar.  Að þessu sinni reyndum við að huga að því að gera unglingunum meira til hæfis og var í því skyni leitað eftir hugmyndum úr unglingadeild Grunnskóla Vestmannaeyja. Þaðan komu margar góðar hugmyndir en ákveðið var að taka upp þá sem nefnd var oftast, þ.e. að grilla með fjölskyldunni. Fjölskylduhelginni lýkur því að þessu sinni með alls herjar grillveislu og samsöng á Stakkó þar sem  allir koma saman og gera það sem Eyjamenn kunna best, að syngja saman í einum kór.

Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er Stöndum saman.  Það er hlutverk fjölskyldna að standa saman í lífsbaráttunni og þeim verkefnum sem að höndum ber í gegnum æviferilinn.  Ef fjölskyldan stendur ekki saman í gegnum þykkt og þunnt, gegnum gleði og áföll, sundrast hún óhjákvæmilega.  Þar liggur ábyrgðin sannarlega á þeim fullorðnu sem setja stefnuna og taka ákvarðanir fyrir þá sem yngri eru. Þó að sjálfsögðu beri okkur að hlusta á raddir barnanna og leita eftir áliti þeirra miðað við aldur þeirra og þroska er það okkar uppalandanna að taka miserfiðar og misvinsælar ákvarðanir fjölskyldunni til heilla. Börnin okkar eru kannski ekki alltaf ánægð með kúrsinn sem tekinn er en þegar mörkin eru skýr og skilaboðin hreinskilin og sanngjörn fylgja börnin stefnunni sem við tökum.

Sem bæjarfélag verðum við líka að taka saman kúrsinn.  Við getum ekki öll ráðið ferðinni á þeirri vegferð sem liggur fyrir höndum. Rétt eins og börnin er það kannski hlutverk okkar almennu bæjarbúa að kvarta pínulítið og kveina, suða aðeins, setja okkur upp á móti og skammast út í “forráðamenn” okkar. En þegar upp er staðið veltur framtíð samfélagsins á samstöðu um þær ákvarðanir sem teknar eru. Líka um ákvarðanir sem falla ekki öllum í geð.

Ég óska öllum bæjarbúum innilega til hamingju með fjölskylduhelgina okkar og hvet alla til að kynna sér dagskrána og taka þátt í viðburðum helgarinnar. 

Guðrún Jónsdóttir yfirfélagsráðgjafi Fjölskyldu- og fræðslusviðs.

 


It's alive!

ÉG ER KOMIN Í SUMARFRÍ FRÁ NÁMINU! 

Teningunum er kastað, sendi frá mér prófverkefnin í gær.  Nú er bara að sjá hvort þetta skilar tilætluðum einingum eða hvort ég verð felld á því að hafa sem hópstjóri hópverkefnis flæmt í burtu alla hina meðlimi hópsins svo ég sat ein uppi með súpuna.  Jæja, maður gerir ekki betur en maður getur.

Og ég vaknaði í með þá tilfinningu að ég væri endurfædd, það er líf að loknum skóla. Heilt sumar framundan með ekkert nema 100% vinnu og fjölskyldu. M.a.s. sunnudagaskólinn kominn í frí.

 

Svo mín fór að þrífa. Viti menn.  Hvað haldiði að ég hafi fundið undir stól inni í stofu?

 

Páskaeggjamálshátt.  Blush

 

Voru ekki páskarnir óvenju seint í ár ... eða var það öfugt?  Nei ég veit ekki hvað stóð á honum, hann hvarf upp í ryksuguna.   Örugglega eitthvað kjaftæði eins og "þokka býður þrifin hönd"  Whistling

 

Assgoti er fínt hérna núna. (það er lokað inn á skrifstofu og inn til unglingsins). 

Hvurn fjandann á ég að gera af mér eftir hádegi?

 Já sunnudagaskólinn er svo sannarlega búinn.  Mín farin að blóta  Cool

 


Snjór, snjór, snjór

Ég er ekki að grínast, það er bálviðri í Vestmannaeyjum. Snjórinn nær hálfa leið upp með veggjum hússins okkar og við erum bókstaflega fennt inni. Og það geisar hríð úti. Ég fæ alveg flassbakk til barnæskunnar þegar skaflarnir náðu upp á þak og við lékum okkur að því að renna okkur af fjárhúsþakinu alla leið niður eða hoppa af hlöðuþakinu í næsta skafl. Bjuggum til snjóhallir og rangala. Kannski maður fari bara í snjógallann í dag og fari í byggingarframkvæmdir.  Ef þessi hríð hættir einhvern tímann.

 

Sko ég er ekki að tala um Siglufjörð eða Dalvík. Ég á heima í Vestmannaeyjum. Þar sem festir aldrei snjó.  Hvað er að ske?


Ég er að verða celebrity :)

Sigrún mágkona "hörbó" náði mér aldeilis í síðustu færslu. Blush  Hún er alltaf að reyna að frelsa mig. Kannski maður slái til og reyni enn einu sinni að þræla í sig svo sem einum dunki af tei (síðasti rann út yfir síðasta söludag) Whistling

Annars er ég bara hress(ari) núna. Við húsbandið erum að fara að hitta skemmtilegasta fólk í heimi í kvöld - sunnudagaskólagengið (án gríns, já það er skemmtilegasta fólk í heimi). Borða góðan mat og hlusta á uppáhalds vínilplöturnar okkar. Eini gallinn er að það er svona þema. Maður á að vera einhver frægur. Ofboðslega frægur.  Ég er búin að svitna yfir þessu alla vikuna og argast út í Guðrúnu Helgu skipuleggjara, eins og maður eigi einhverja celebrities búninga á lager? 

 

En ákvörðun var tekin í skyndi í dag, ég ætla að brjóta gegn mínu innsta eðli og vera einhver sem er mjög ólík mér.

Ekki segja neinum. ....

En ég ætla að vera ....

nei, ekki Britney Spears........

 

Ég ætla að setja á mig svuntu og vera Betty Crocker W00t


Ég er pirruð

Ég er pirruð þessa dagana. Já gott ef ekki vikurnar.

Það helsta sem pirrar mig:

Það pirrar mig hvað ég er löt.  Ég finn engan drifkraft, öll verkefni framundan kalla á stórt Oh! í huganum.

Það pirrar mig að ég skuli ekki geta haldið áætlun með líkamsrækt 4-5 sinnum í viku. Ef það eru ekki fundir sem dragast von úr viti, þá er það ófærð (já ég veit að strangt til tekið telst það líkamsrækt að eyða hádeginu í að reyna að moka sig út af bílastæðinu), eða yfirgengileg þreyta svo það er ekki vitundarvon að vakna kl. hálf sex og drífa sig út.  Afsakanir afsakanir. Og allur þessi rútínuskortur hefur sömu áhrif á einhverfugenin mín og naglaískur á skólatöflu. Já einhverfugenin mín - þessi sem dorma alltaf í öllum mínum gerðum og líðan (einhver erfði gorminn minn af þessu og ég á væntanlega helmings sök þar á).

Í framhaldi af því þá pirrar það mig hvað ég er ógeðslega feit. Já, það er ekkert orð sem lýsir líkamsástandi mínu betur.  Ég er ekki ánægð með mig.

Ég er pirruð á flensuskít sem stingur sér niður þegar síst skyldi, þegar ég á að vera á áhugaverðri ráðstefnu á fastalandinu.

Ég er pirruð á overloadi af verkefnum sem sér engan enda á.

Ég er pirruð á draslinu og skítnum í húsinu mínu.  Mér leiðast heimilisverk, nei það er ekki satt. Ég hata þau. Hvernig get ég ætlast til að börnin mín vinni þau með bros á vör þegar ég er alltaf eins og þrumuský þegar ég þarf að snerta tusku eða kúst?

Síðast en ekki síst, ég er pirruð á þessum snjó.  Ef ég hefði viljað búa í snjóbæ hefði ég ekki flutt til Vestmannaeyja.  Það hefur verið svindlað á mér

Ég held að þetta síðastnefnda sé grunnurinn að öllum hinum pirringnum. Ég læt veðrið hafa of mikil áhrif á mig.

 

 


Misheppnuð tilraun til fjarlægingar á líffærum

Ef það er eitthvað tvennt sem kemur taugakerfi mínu og andlegu jafnvægi í bakkelsi þá er það:

Að keyra bíl við erfiðar aðstæður (t.d. eftir hálum Suðurlandsvegi og eftir vegakerfi höfuðborgarinnar)

Að fara með börnin mín til læknis vitandi að þau eiga eftir að ganga í gegnum sársauka og óþægindi. 

Síðan í júní sl. hef ég verið að sannfæra sjálfa mig um að ég verði að vera sterk og koma barninu mínu í gegnum hálskirtlatöku, þann hryllilega fjanda sem ég sjálf þurfti að ganga í gegnum snemma á síðasta ári.

Síðan í desember hef ég þurft að undirbúa drenginn minn fyrir þessi ósköp. Ganga í gegnum röksemdafærsluna, af hverju - af því það þarf, já þú missir úr skólanum, þú mátt ekkert borða og drekka fyrr en eftir aðgerð, já mamma er vond, já það verður sárt í smá tíma en svo verður það betra. Búa til og lesa félagshæfnisögu.  Jánka því að mamma sé vond og eigi ekki skilið að fá afmælisgjöf. Vinna hann smám saman á mitt band.

Martröðin mín átti að raungerast í dag og á morgun. Keyrandi eftir snjóföllnum Þrengslaveginum, takandi fram úr hæggengri vörubifreið á sama tíma og ég rökræði við drenginn minn um nauðsyn hálskirtlaaðgerðar og að hann sé ekki að fara að deyja. Akandi í gegnum borg óttans sem ég get með engu móti lært að rata um. Ég er að tala um þvílíkan sveitalubba sem ég er, ég fer fyrst inn í Hafnarfjörð áður en ég fer í Fossvoginn - af því að ég rata bara þá leið.

Farandi á spítalann, bíðandi eftir hjúkrunarfræðingi, bíðandi eftir svæfingarlækni.  Sitjandi ofan á ofvirku og einhverfu barninu (ekki ýta á þessa takka, ekki fikta í áhöldunum hjá lækninum, ekki slökkva ljósið þarna)  Láta móttökuritara hálfskamma mann, hálfvegis hæða mann fyrir að kunna ekki prótókolin ("þú áttir að gefa þig fram hjá mér" í tóninum *fíflið þitt*)

Hittandi að lokum deildarlækni sem skoðaði drenginn og kvað upp dóm. "Þessir hálskirtlar þurfa ekki að fjarlægjast".

Ég hváði, missti kjálka, missti slag úr hjarta, feginleikinn steig upp, efasemdirnar létu á sér kræla. Fékk það í gegn að hann talaði a.m.k. við sérfræðinginn sem fyrir hálfu ári síðan hafði líklegast aldrei séð jafn aðgerðareftirsóknarverða hálskirtla og í drengnum mínum. Alveg sjálfsagt mál og hann sló á þráðinn eftir drykklanga stund, við kúrandi okkur í Hafnarfirðinum.  Niðurstaðan staðreynd. Engin aðgerð.

Nú er bara eftir næstu dagana að rökræða þetta fram og til baka við drenginn - af hverju þarf ég ekki í aðgerð?  Það ætti að takast einhvern tímann fyrir mánaðamót.

 Í staðinn fyrir ömurlegan sjúkrahúsdag græðum við "skemmtidag" í höfuðborginni á morgun. Best að ná í götukortið og fara að glöggva sig á leiðinni upp í Smáralind.

Niðurstaða:  Ef maður bíður nógu lengi, þá leysast vandamálin af sjálfu sér. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband