Misheppnuð tilraun til fjarlægingar á líffærum

Ef það er eitthvað tvennt sem kemur taugakerfi mínu og andlegu jafnvægi í bakkelsi þá er það:

Að keyra bíl við erfiðar aðstæður (t.d. eftir hálum Suðurlandsvegi og eftir vegakerfi höfuðborgarinnar)

Að fara með börnin mín til læknis vitandi að þau eiga eftir að ganga í gegnum sársauka og óþægindi. 

Síðan í júní sl. hef ég verið að sannfæra sjálfa mig um að ég verði að vera sterk og koma barninu mínu í gegnum hálskirtlatöku, þann hryllilega fjanda sem ég sjálf þurfti að ganga í gegnum snemma á síðasta ári.

Síðan í desember hef ég þurft að undirbúa drenginn minn fyrir þessi ósköp. Ganga í gegnum röksemdafærsluna, af hverju - af því það þarf, já þú missir úr skólanum, þú mátt ekkert borða og drekka fyrr en eftir aðgerð, já mamma er vond, já það verður sárt í smá tíma en svo verður það betra. Búa til og lesa félagshæfnisögu.  Jánka því að mamma sé vond og eigi ekki skilið að fá afmælisgjöf. Vinna hann smám saman á mitt band.

Martröðin mín átti að raungerast í dag og á morgun. Keyrandi eftir snjóföllnum Þrengslaveginum, takandi fram úr hæggengri vörubifreið á sama tíma og ég rökræði við drenginn minn um nauðsyn hálskirtlaaðgerðar og að hann sé ekki að fara að deyja. Akandi í gegnum borg óttans sem ég get með engu móti lært að rata um. Ég er að tala um þvílíkan sveitalubba sem ég er, ég fer fyrst inn í Hafnarfjörð áður en ég fer í Fossvoginn - af því að ég rata bara þá leið.

Farandi á spítalann, bíðandi eftir hjúkrunarfræðingi, bíðandi eftir svæfingarlækni.  Sitjandi ofan á ofvirku og einhverfu barninu (ekki ýta á þessa takka, ekki fikta í áhöldunum hjá lækninum, ekki slökkva ljósið þarna)  Láta móttökuritara hálfskamma mann, hálfvegis hæða mann fyrir að kunna ekki prótókolin ("þú áttir að gefa þig fram hjá mér" í tóninum *fíflið þitt*)

Hittandi að lokum deildarlækni sem skoðaði drenginn og kvað upp dóm. "Þessir hálskirtlar þurfa ekki að fjarlægjast".

Ég hváði, missti kjálka, missti slag úr hjarta, feginleikinn steig upp, efasemdirnar létu á sér kræla. Fékk það í gegn að hann talaði a.m.k. við sérfræðinginn sem fyrir hálfu ári síðan hafði líklegast aldrei séð jafn aðgerðareftirsóknarverða hálskirtla og í drengnum mínum. Alveg sjálfsagt mál og hann sló á þráðinn eftir drykklanga stund, við kúrandi okkur í Hafnarfirðinum.  Niðurstaðan staðreynd. Engin aðgerð.

Nú er bara eftir næstu dagana að rökræða þetta fram og til baka við drenginn - af hverju þarf ég ekki í aðgerð?  Það ætti að takast einhvern tímann fyrir mánaðamót.

 Í staðinn fyrir ömurlegan sjúkrahúsdag græðum við "skemmtidag" í höfuðborginni á morgun. Best að ná í götukortið og fara að glöggva sig á leiðinni upp í Smáralind.

Niðurstaða:  Ef maður bíður nógu lengi, þá leysast vandamálin af sjálfu sér. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigþóra Guðmundsdóttir

Góða skemmtun í borginni og ég vona nú að þú finnir smáralindina! Gott að enga aðgerð þurfti en samt ótrúlegt hvað þetta gerist oft þegar maður er búin að undirbúa hlutina vel!

Annars er alveg spurning um að kanna hvort hann Geir minn sé eitthvað skyldur þér... hann nefnilega rata bara um Reykjavík út frá Sæbrautinni!!! Svolítið pirrandi að þurfa alltaf að keyra sjálf ef maður þarf að fylgja tímaáætlun!!! 

Sigþóra Guðmundsdóttir, 10.1.2008 kl. 02:04

2 Smámynd: Guðrún Jónsdóttir

Takk Sigþóra.

Þetta er í fínu lagi með að rata eða ekki rata. Bara gefa sér nægan tíma og hafa bensíntankinn fullan.

Já og svo eru það mjög ákveðin skilaboð sem ég hef af gefnu tilefni gefið börnunum mínum : ekki tala meðan mamma er að keyra í Reykjavík

Guðrún Jónsdóttir, 10.1.2008 kl. 09:10

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Eg á ekki til orð. hvað var að þessum aðgerðarglaða lækni?

Jóna Á. Gísladóttir, 19.1.2008 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband