Af samtakamætti Eyjamanna og samgöngum

Frá því ég flutti til Eyja fyrir rúmum 15 árum hef ég dáðst að mörgu og þar með töldu samtakamætti Eyjamanna. Hér er gott að syrgja, hér er gott að eiga erfitt því samkenndin er mikil. Hér er líka gott að eiga góðar og glaðlegar stundir.

Því miður felst samtakamátturinn stundum líka í því að vera samtaka í að tæta niður ágætis hugmyndir. Hér hafa verið gefin út veiðileyfi á ótrúlegustu hluti, allt frá aldursskiptingu grunnskóla (sem þó var kýld í gegn) til þeirrar hugmyndar að gera höfn í Bakkafjöru.  Bakkafjöruhöfn varð að pólitísku óhreinu Evubarni fyrir kosningarnar. "Enginn" virtist vilja Bakkafjöruhöfn og "allir" fundu því allt til foráttu. Gæsalappirnar merkja að ég tel að hávær minnihlutahópur hafi ráðið ferðinni í umræðunni.

Nú tel ég mig vera sérfræðing á mínu sviði. Ég tel mig ekki vera sérfræðing á öllum sviðum. Þar deili ég ekki skoðun með stórum hluta Eyjamanna sem telja sig vera sérfræðinga á öllum sviðum.  Ég tel mig hafa skrambi góða þekkingu á félagsþjónustu og aðstæðum fólks í hinum ýmsu erfiðleikum. Ég tel mig ekki hafa nokkurt einasta vit á því hvort og þá hvernig hægt sé að búa til brúklega höfn við Landeyjasand. Ég treysti þeim sérfræðingum sem um málið fjalla að finna það út.

Ég er þó viss um eitt og tel mig vera sérfræðing í því:  Sjóferðir eins og ég lenti í sl. sunnudagskvöld (og í mörg skipti áður) með Herjólfi eru ekki boðlegar fólki sem vill öruggar og þægilegar samgöngur, fólki sem á heimtingu á öruggum og þægilegum samgöngum. Þetta er ekki boðlegt.  Það hefði skipt mig öllu máli að kveljast aðeins í hálftíma - sem yrði reyndin með Bakkafjöruhöfn, en hefði ekki skipt meginmáli þó kvölin hefði aðeins verið klukkutíma styttri en hún var - sem yrði reyndin með nýjum "hraðskreiðum" Herjólfi til Þorlákshafnar. Og það breytir mig engu þótt hægt verði að gera göng einhvern tímann um miðja þessa öld. 

Með hverri sjóveikihrinunni hallast ég æ meira að Bakkafjörunni. En það skiptir svo sem engu. Ég hef nefnilega ekkert vit á þessu og því síður ræð ég þessu. 

Búsetu minni til skemmri og lengri tíma ræð ég hins vegar......


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband